Klárlega markmiðið að ná verðlaunasæti

Erna Sóley býr sig undir að varpa kúlunni.
Erna Sóley býr sig undir að varpa kúlunni. Ljósmynd/FRÍ

„Það var klárlega markmiðið að komast í verðlaunasæti fyrir mótið. Ég var með fjórða besta árangurinn af keppendum fyrir mótið og ég er mjög ánægð með að lenda í þriðja sæti," sagði Erna Sóley Gunnarsdóttir í samtali við mbl.is í dag. 

Erna var þá nýbúin að tryggja sér bronsverðlaun í kúluvarpi á Evr­ópu­móti U20 ára í frjálsíþrótt­um í Borås í Svíþjóð með því að kasta 15,65 metra í sjöttu og síðustu um­ferð móts­ins.

„Það var grenjandi rigning á mótinu, hringurinn var blautur og kúlan mjög sleip. Ég ákvað samt í síðasta kastinu að ég ætlaði að ná þessu og það var þvílíkur léttir að sjá töluna koma upp og sjá að ég var komin í þriðja sætið."

Besta kast Ernu til þessa er 16,13 metrar, en hún er sátt við sinn árangur, í erfiðum aðstæðum. „Miðað við aðstæður var þetta mjög gott. Ég kastaði lengra í undanúrslitum í gær en ég get verið sátt við minn árangur."

Erna er í námi við Rice University-háskólann í Houston, Texas, þar sem hún er á skólastyrk. Þar hefur hún bætt sig mikið á skömmum tíma. 

Erna á verðlaunapallinum í dag.
Erna á verðlaunapallinum í dag. Ljósmynd/FRÍ

„Ég fékk skólastyrk á síðasta ári og frá því ég kom í skólann hef ég bætt mig um meira en einn og hálfan metra. Þetta hefur verið mjög skemmtilegt tímabil núna með miklum bætingum. Þetta mót er toppurinn á því tímabili," sagði Erna, en það er nóg að gera hjá bronsverðlaunahafanum. 

„Nú er það bikarkeppni FRÍ, svo er Norðurlandamót og Evrópubikar. Ég stefni á því að klára tímabilið vel og halda áfram að bæta mig," sagði Erna Sóley. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert