Náði Evrópubronsi í síðasta kastinu

Erna Sóley fagnar í dag.
Erna Sóley fagnar í dag. Ljósmynd/FRÍ

Erna Sóley Gunnarsdóttir tryggði sér rétt í þessu bronsverðlaunin í kúluvarpi kvenna á Evrópumóti U20 ára í frjálsíþróttum í Borås í Svíþjóð með því að kasta 15,65 metra í sjöttu og síðustu umferð mótsins.

Erna Sóley kastaði 15,41 metra í annarri umferð og var í fjórða sætinu fram að síðasta kastinu en met hennar í þessum aldursflokki er 16,13 metrar. Erna kastaði 15,25 metra í fyrsta kasti, 15,38 í þriðja og 14,64 í fjórða en gerði ógilt í fimmtu umferðiknni.

Jorinde van Klinken frá Hollandi sigraði með miklum yfirburðum eftir að hafa kastað 17,39 metra strax í fyrstu umferð. Pinar Akyol frá Tyrklandi varð önnur með 16,19 metra og síðan kom Erna.

Valdimar Hjalti Erlendsson keppti í morgun í úrslitum í kringlukasti en hann varð níundi inn í úrslitin í fyrradag þegar hann kastaði 56,04 metra. Í morgun kastaði hann 55,75 metra og varð tólfti og síðastur af þeim sem komust í úrslitin. Yasiel Brayan Sotero frá Spáni varð Evrópumeistari en hann kastaði 62,93 metra. Met Hjalta í þessum aldursflokki er 57,16 metrar sem hefði komið honum í níunda sætið.

mbl.is