Kyntáknið með mottuna

Mark Spitz á fleygiferð í ólympíulauginni í München.
Mark Spitz á fleygiferð í ólympíulauginni í München. Reuters

Einn mesti afreksmaður í sögu Ólympíuleikanna er bandaríski sundmaðurinn Mark Spitz sem gerði garðinn frægan á leikunum í München árið 1972 eða fyrir fjörutíu og sjö árum.

Ef ekki hefði verið fyrir glæsilega framgöngu Spitz í lauginni, þá hefði þeirra leika líklega aðallega verið minnst fyrir atburðinn skelfilega, þegar palestínskir hryðjuverkamenn komust inn í Ólympíuþorpið og drápu ellefu ísraelska íþróttamenn og þjálfara.

Árangur Marks Spitz í München var nánast með ólíkindum. Hann setti met þegar hann vann sjö gullverðlaun og sigraði í öllum þeim sundgreinum sem hann tók þátt í. Hann lét ekki þar við sitja heldur setti heimsmet í öllum sjö greinunum: 100 metra skriðsundi, 200 metra skriðsundi, 100 metra flugsundi, 200 metra flugsundi, 4x100 metra fjórsundi og í tveimur boðsundsgreinum, 4x100 metra skriðsundi og 4x200 metra skriðsundi.

„Aðeins“ tvö gull árið 1968

Mark Spitz var óhræddur við að setja sér háleit markmið og gerði það raunar á Ólympíuleikunum í Mexíkó fjórum árum fyrr. Þar setti hann stefnuna á að vinna sex gullverðlaun og kannski ekki að ástæðulausu því á þeim tímapunkti hafði Spitz sett tíu heimsmet.

Hann vann „aðeins“ tvær greinar og í báðum tilfellum í boðsundi. Auk þess fékk hann silfur og brons á leikunum 1968. Þó Spitz hafi verið aðeins 18 ára gamall þá kom það mörgum mjög á óvart að honum skyldi ekki takast að vinna neina einstaklingsgrein en veikindi settu reyndar strik í reikninginn hjá kappanum.

Ætlaði að keppa í sex greinum

Spitz virðist hafa dregið lærdóm af leikunum í Mexíkó en hélt sig við sama markmiðið fyrir leikana í München. Spitz velti því fyrir sér að keppa í þeim sex greinum sem hann taldi sig eiga að vinna og vildi forðast það að stinga sér í laugina á leikunum 1972 án þess að vinna. Sex gull í sex tilraunum fannst honum hljóma mun betur en sex gull í sjö tilraunum. Spitz var tregur til þess að synda 100 metra skriðsund vegna þessa en lét sig hafa það og sigraði á nýju heimsmeti eins og áður segir.

Forsíðumyndin fræga af Spitz eftir leikana 1972.
Forsíðumyndin fræga af Spitz eftir leikana 1972.

Er í góðum félagsskap

Afrek Spitz er eitt það mesta í sögu Ólympíuleikanna og enginn hafði unnið fleiri gullverðlaun á einum leikum þar til bandaríski sundkappinn Michael Phelps sló honum við í Peking árið 2008.

Með níu Ólympíugull í heildina í verðlaunaskáp sínum er Spitz í afar góðum félagsskap með þeim Larisu Latynina, Finnanum fljúgandi Paavo Nurmi og Carl Lewis. Phelps hefur hins vegar unnið samtals tuttugu og þrjú gull.

Rakaði ekki líkamshárin

Á þessum árum voru menn farnir að setja sig í vísindalegar stellingar til þess að bæta árangur sinn í íþróttum. Í Morgunblaðinu 6. september 1972 er greint frá því að margir sundkappar hafi krúnurakað sig fyrir sundkeppnina í München og algengt hafi verið að þeir rökuðu af sér öll líkamshár þar sem þau draga úr sundhraðanum.

Mark Spitz gaf lítið fyrir þetta enda skartaði hann karlmannlegri mottu og var vel hærður. „Ég er síðhærður og skeggjaður af því ég kann vel við það,“ hafði blaðið eftir Spitz.

Minnti Matthías á Sharif

Matthías Johannessen, þáverandi ritstjóri, skrifaði skemmtilegan pistil í Morgunblaðið frá München 8. september 1972 í greinaflokki sem kallaðist „Rabb frá München“. Þar fór Matthías um víðan völl en sagði meðal annars í umfjöllun sinni um Spitz:

„Hér er helzt ekki talað um neitt nema íþróttir og nafnið: Mark Spitz er á hvers manns vörum. Geðugur ungur maður að sjá, dökkhærður með svart yfirskegg og minnir á Omar Sharif í aðalhlutverki skáldsins í nóbelsverki Pasternaks, dr. Zhivagó. Hann er orðinn svo frægur að foreldrar hans eru komin í fullri líkamsstærð á forsíður blaðanna. Rétt áðan var sýnt í sjónvarpinu, þegar Mark Spitz vann sjötta gullpeninginn sinn, mig minnir í frjálsri aðferð.“

Mark Spitz minnti Matthías Johannesen á Íslandsvininn Omar Sharif.
Mark Spitz minnti Matthías Johannesen á Íslandsvininn Omar Sharif.

Hætti við tannlækningarnar

Þegar Mark Spitz keppti á Ólympíuleikunum árið 1972 var hann 22 ára gamall háskólanemi og hugðist sérhæfa sig í tannlækningum. Íþróttin hafði að einhverju leyti tafið hann í námi en hann ákvað að leikunum loknum að hætta sem keppnismaður og ljúka náminu.

Þá buðust Spitz hins vegar ýmis tækifæri til þess að gera út á frægð sína og frama. Hann varð mjög þekktur í Bandaríkjunum og víðar fyrir afrek sín á Ólympíuleikunum. Ekki skemmdi heldur fyrir að hann þótti mikið kyntákn. Fræg mynd af honum á sundskýlunni með gullverðlaunapeningana sína um hálsinn gerði væntanlega sitt til að ýta undir þá ímynd. Hann hætti því við frekara nám og reyndi fyrir sér á öðrum vígstöðum.

Reyndi við leikana 1992

Spitz reyndi að hasla sér völl í sjónvarpi og kom fram bæði í skemmtiþáttum og auglýsingum. Síðar tók hann þátt í að lýsa Ólympíuleikum 1976 og 1984 fyrir ABC-sjónvarpsstöðina. Hann fékk fjölda auglýsingasamninga eftir leikana í München og þénaði vel á því. Segja má að hann hafi verið fyrsti Bandaríkjamaðurinn sem nýtti sér ólympíuafrek til þess að koma undir sig fótunum fjárhagslega. Ferill Spitz í skemmtanaiðnaðinum þykir ekki merkilegur en honum vegnaði betur í fasteignaviðskiptum.

Spitz komst aftur í fréttirnar árið 1992 þegar hann tók fram sundskýluna og reyndi við ólympíulágmark fyrir leikana í Barcelona árið 1992. Þá var Spitz orðinn 41 árs og var hann um tveimur sekúndum frá því að komast í ólympíulið Bandaríkjanna.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu hinn 26. júlí 2012

Mark Spitz árið 2014.
Mark Spitz árið 2014. Reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert