Hljóp inn á þing

Lasse Virén kemur sér á fætur eftir fallið í 10 …
Lasse Virén kemur sér á fætur eftir fallið í 10 þúsund metrunum í München 1972. AP

Hlauparinn með stóra brosið, Mo Farah, uppskar verðskuldaða aðdáun þegar honum tókst að sigra bæði í 5 og 10 þúsund metra hlaupi á tvennum Ólympíuleikum í röð. Náði hann því 2012 og 2016. En hver var fyrstur að afreka slíkt?

Finninn Lasse Virén náði því fyrstur, en Finnar eiga glæsilega hefð á hlaupabrautinni. Íþróttadeildin fékk hvatningu um að dusta rykið af Virén í Sögustundinni og er sjálfsagt að gera það, en Virén hélt merki Finna hátt á lofti á áttunda áratugnum. Finnar áttu mikla afreksmenn í hlaupum á þriðja áratugnum. Hannes Kolehmainen, Ville Ritola og Paavo Nurmi unnu allir til margra verðlauna á Ólympíuleikum en sá síðastnefndi er þeirra frægastur og var kallaður Finninn fljúgandi. Um hálfri öld síðar tók Virén við keflinu.

Mo Farah með ólympíugull um hálsinn.
Mo Farah með ólympíugull um hálsinn. AFP

Lasse Virén sigraði í 5 þúsund og 10 þúsund metra hlaupi á hinum frægu Ólympíuleikum í München árið 1972. Eflaust kom árangurinn mörgum á óvart því Virén var ekki mjög þekktur. Árið áður hafði hann hafnað í 7. og 17. sæti í þessum greinum á EM á heimavelli í Helsinki. Eftir EM hafði hann hins vegar áttað sig á að betur mætti ef duga skyldi og fór til Keníu í æfingabúðir áður en hann gerði atlögu að ólympíulágmarkinu fyrir leikana 1972. Í 5 þúsund metrunum í München sigraði hann á tímanum 13:26,42 mínútum og í 10 þúsund metrunum á 27:38,35 mínútum.

Stutt dvöl í Utah

Virén fæddist 22. júlí árið 1949 og heitir fullu nafni Lasse Artturi Virén. Hann fæddist í Myrskylä, norðaustur af Helsinki, en þar búa innan við tvö þúsund manns. Eftir að hafa keppt fyrst og fremst í Finnlandi hélt hann til Bandaríkjanna og nam við Brigham Young-háskólann í Utah. Hann hætti hins vegar í námi eftir eitt ár og var þá 19 ára gamall. Hóf hann æfingar undir handleiðslu Rolf Haikkola í heimalandinu og gegndi einnig herþjónustu. Tveimur árum síðar keppti hann á EM eins og áður segir.

Lasse Virén kemur fyrstur í mark í 5.000 m hlaupinu …
Lasse Virén kemur fyrstur í mark í 5.000 m hlaupinu á Ólympíuleikunum 1976. Dick Quax frá Nýja-Sjálandi (691) varð annar og Klaus Hildenbrand frá Vestur-Þýskalandi náði bronsinu með því að kasta sér fram. AP

Virén varð auðvitað mjög þekktur eftir afrek sín í München. Hann var fjórði maðurinn til að ná að vinna báðar greinarnar á sömu Ólympíuleikunum. Á þessum tíma þurftu menn að fara í undanrásir í 10 þúsund metra hlaupinu og hlaupa þá vegalengd þar af leiðandi tvisvar. 5 þúsund metra hlaupið var eftir það og æfingarnar í Kenía skiluðu sér greinilega.

Furðumeiðsli á milli leikanna

Tímabilið eftir München var ekki gott hjá Virén. Hann lagði ekki eins hart að sér við æfingar og hann var vanur að gera en sinnti á hinn bóginn ýmsum verkefnum sem tengdust þeirri frægð sem hann hafði öðlast. Veturinn 1973-1974 æfði hann aftur af krafti en hann varð fyrir furðulegum meiðslum sumarið 1974. Rak þá lærið í borð þegar hann spratt á fætur til að svara símanum.

Finninn Lasse Virén, myndin er tekin í kringum 1974.
Finninn Lasse Virén, myndin er tekin í kringum 1974.

Þessi óvenjulegu meiðsli áttu eftir að draga dilk á eftir sér og Virén fór í aðgerð vegna þeirra snemma árs 1975 þegar ljóst var að hann myndi ekki lagast án inngrips. Svo heppilega vildi til að ekki voru nein stórmót á dagskrá um sumarið sem Virén þurfti að velta fyrir sér. Hann hafði því nægan tíma til að jafna sig og byggja sig upp á ný fyrir leikana í Montréal 1976. Gerði hann það samviskusamlega.

Ýmsar kenningar á lofti

Þetta tímabil á milli Ólympíuleikanna 1972 og 1976 var því mjög dauft fyrir jafn mikinn afreksmann og Virén. Hefur þetta rennt stoðum undir kenningar um að hann hafi fyrst og fremst verið vel gíraður þegar kom að Ólympíuleikum. Lærmeiðslin hafa stundum týnst í söguskýringum og ef til vill lítið gert úr því hvernig hann eyddi tímanum fyrsta árið eftir leikana 1972. En ljóst er að þá sinnti hann ekki æfingum eins og hann var vanur. Meira að segja er til viðtal við föður hans frá árinu 1973 þar sem hann hefur áhyggjur af því hvernig frægð sonarins hafi truflandi áhrif æfingar og einbeitinguna. 

Einnig hafa lengi verið sögusagnir um að Virén hafi stundað blóðskipti þegar mikið lá við til að hjálpa sér í keppni. Hann hefur ávallt neitað því og hefði kannski ekki verið stórmál fyrir hann að játa slíkt því það varð ekki ólöglegt í íþróttakeppnum fyrr en áratug síðar.

Virén mætti vel undirbúinn til Montréal árið 1976 og tókst að endurtaka leikinn. Hann hljóp 10 þúsund metrana á 27:40,4 og hafði minnst fyrir þeim gullverðlaunum af þeim fjórum sem hann vann á Ólympíuleikum. Samkeppnin í 5 þúsund metra hlaupinu var miklu meiri, en þar tók Virén forystuna þegar 600 metrar voru eftir og hélt henni. Allt var það samkvæmt dagskipun þjálfarans, en Virén bjó yfir miklum andlegum styrk og gekk vel að framfylgja áætlunum þegar allt var undir. Hljóp á 27:40,38. Daginn eftir skellti Finninn sér í maraþonkeppni leikanna eins og menn gera. Náði meira að segja mjög góðum tíma og hljóp á 2:13:00 klukkustundum.

Keppti á þriðju leikunum

Virén er þrefaldur ólympíufari því hann keppti í Moskvu árið 1980 áður en hann hætti keppni í hlaupum. Hafnaði hann í 5. sæti í 10 þúsund metra hlaupinu í Moskvu. Þegar upp er staðið er úrslitahlaupið í 10 þúsund metra hlaupinu á leikunum í München 1972 frægasta hlaup hans. Þegar hlaupið var tæplega hálfnað féllu þrír keppendur, þar á meðal Virén, eftir að hafa rekist saman á brautinni.

Lasse Virén á frímerki vegna Ólympíuleikanna árið 1976.
Lasse Virén á frímerki vegna Ólympíuleikanna árið 1976.

Virén tapaði þar um fimm sekúndum en var fljótur að vinna þær upp og tókst að sigra. Er það mikið afrek því í hlaupum sem þessum er takturinn mikilvægur fyrir hlauparana. Ef þeir verða fyrir því að detta geta þeir jafnframt fengið hálfgert áfall. Þetta beit hins vegar ekki á Virén. Merkilegt er hvernig íþróttasagan getur endurtekið sig því Mo Farah sigraði í 10 þúsund metra hlaupinu í Ríó 2016 eftir að hafa dottið í hlaupinu.

Virén starfaði um tíma á yngri árum sem lögregluþjónn. Síðar á lífsleiðinni, árið 1999, fannst honum ekki nóg að hafa framfylgt lögunum heldur vildi hann einnig koma að lagasetningunni sjálfri. Gaf hann kost á sér í þingkosningum og komst inn. Sat hann á finnska þinginu frá 1999 til 2007 og aftur frá 2010 til 2011 en þá lét hann gott heita.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu hinn 24. apríl 2020. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert