Býðst til að borga fyrir jarðarförina

Floyd Mayweather yngri lagði hanskana á hilluna árið 2015.
Floyd Mayweather yngri lagði hanskana á hilluna árið 2015. AFP

Hnefaleikakappinn fyrrverandi Floyd Mayweather yngri hefur boðist til þess að borga fyrir jarðarför George Floyds, Bandaríkjamanns sem lést í haldi lögreglunnar þar í landi 25. maí, en það er bandaríski miðillinn TMZ sem greinir frá þessu. Mayweather lagði hanskana á hilluna árið 2015 en hann er 43 ára gamall í dag.

Allt er á suðupunkti í Bandaríkjunum þessa dagana eftir dauðsfall George Floyd sem lést eftir að hvítur lögreglumaður kraup á hálsi hans við handtöku í Minneapolis. Fjöldamótmæli hafa átt sér stað í öllum ríkjum Bandaríkjanna undanfarna daga en Floyd var dökkur á hörund og eru margir búnir að fá sig fullsadda af lögregluofbeldi í garð þeirra sem eru dökkir á hörund í Bandaríkjunum.

TMZ greinir einnig frá því að Mayweather ætli sér að borga fyrir fjórar minningarathafnir sem verða haldnar víðs vegar um Bandaríkin fyrir Floyd. Minningarathafnirnar munu fara fram í Houston, Minnesota og Carlotte í það minnsta en fjórða og síðasta borgin hefur ekki enn þá verið nafngreind samkvæmt bandaríska miðlinum.

„Hann er bara að gera það sem honum finnst rétt að gera í þessari stöðu sem upp er komin í samfélaginu okkar,“ sagði talsmaður Mayweather í samtali við TMZ. Mayweather var mjög umdeildur íþróttamaður en hann er einn sigursælasti hnefaleikakappi sögunnar, tapaði aldrei bardaga, og varð níu sinnum heimsmeistari á rúmlega tuttugu ára löngum ferli.

mbl.is