Þú mátt ekki segja að þú hafir verið 15 ára

„Ef ég hefði vitað hvar Rymdgymnasiet-menntaskólinn var staðsettur þá hefði ég líklegast ekki farið í skólann,“ sagði Ylfa Rúnarsdóttir, atvinnukona á snjóbretti, í Dagmálum, frétta- og menningarlífsþætti Morgunblaðsins.

Ylfa, sem er 27 ára gömul, eyddi þremur árum í sænska menntaskólanum sem er staðsettur í bænum Kiruna í norður-Svíþjóð.

Hún flutti að heiman þegar hún var sextán ára gömul til þess að elta snjóbrettadrauminn en hún er þekkt nafn í snjóbrettaheiminum í dag og samningsbundin snjóbrettarisanum Burton.

„Ég sagði í einhverju viðtali einhverntíman að ég hefði verið 15 ára þegar ég flutti að heiman og mamma skammaði mig fyrir það,“ sagði Ylfa.

„Þú mátt ekki segja aftur að þú hafir verið 15 ára því þú varst 16 ára sagði mamma við mig þannig að ég held að þetta hafi verið erfiðara fyrir foreldra mína en ég upplifði,“ sagði Ylfa.

Viðtalið við Ylfu í heild sinni má nálgast með því að smella hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert