Flókið ofbeldismál skekur Noreg

Jakob Ingebrigtsen gekk í það heilaga á dögunum en hann …
Jakob Ingebrigtsen gekk í það heilaga á dögunum en hann sakar nú föður sinn um andlegt og líkamlegt ofbeldi til fjölda ára ásamt bræðrum sínum. AFP/Annika Byrde

Norsku hlaupararnir Henrik, Filip og Jakob Ingebrigtsen hafa sakað föður sinn Gjert Ingebrigtsen um líkamlegt og andlegt ofbeldi í sinn garð.

Gjert, sem er 57 ára gamall, hefur þjálfað drengina frá því að þeir voru ungir strákar en Jakob, sem er 23 ára gamall, er þeirra þekktastur.

Hann er ólympíumeistari í 1.500 metra hlaupi frá því í Tókýó 2021. Þá hefur hann tvívegis orðið heimsmeistari í 5.000 metra hlaupi og fjórum sinnum hefur hann orðið Evrópumeistari í langhlaupum.

Hætti að þjálfa þá á síðasta ári

Málið er til rannsóknar hjá lögregluyfirvöldum í Noregi eftir að bræðurnir lögðu fram kæru en Gjert lét af þjálfun sona sinna á síðasta ára.

Í fyrstu var gefið til kynna að hann væri að stíga til hliðar vegna veikinda en síðar kom í ljós að eitthvað hafði komið upp á innan fjölskyldunnar.

Alls eru systkinin sjö talsins og neitar faðir þeirra staðfastlega að hafa beitt þau bæði ofbeldi og harðræði í æsku þeirra.

Ráðríkur og ágengur

„Við ólumst upp hjá föður sem var bæði ráðríkur og ágengur. Líkamlegt ofbeldi og hótanir voru hluti af uppeldisaðferðum hans. Þetta situr enn þá í okkur og hefur fylgt okkur frá því að við vorum ungir að árum,“ segir í pistli sem bræðurnir sendu frá sér og birtist á heimasíðu VG en Henrik er 32 ára og Jakob þrítugur.

„Við sættum okkur við þetta á einhverjum tímapunkti. Við lærðum að lifa með þessu, héldum við, en fyrir tveimur árum endurtók ofbeldið sig og það var í raun dropinn sem fyllti algjörlega mælinn hjá okkur.

Álagið og pressan sem hefur verið á okkur alla tíð er ómannleg. Við erum allir orkulausir núna og eigum erfitt með að njóta þess að stunda íþróttir,“ segir enn fremur í pistli hlauparanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert