Spagnolo notaði 66 högg á 17. brautina á TPC-Sawgrass

17. holan á Sawgrass vellinum er gríðarlega falleg og erfið.
17. holan á Sawgrass vellinum er gríðarlega falleg og erfið. AP

TPC Sawgrass-völlurinn í Bandaríkjunum, þar sem að Players-meistaramótið fer fram, er sérstakur að því leyti að völlurinn er hannaður með það í huga að áhorfendur geti séð vel yfir brautirnar með því að standa utan brautar á náttúrulegum „áhorfendastæðum". Næst síðasta braut vallarins, sú 17., er líklega ein frægasta golfhola heims en brautin er par 3 og er vatn allt í kringum flötina en kylfingar ganga eftir mjóum gangstíg inná flötina sem er eins og eyja í útliti. Margir telja að þessi hola sé ein sú allra skemmtilegasta á PGA-mótaröðinni en árlega fara um 150.000 golfboltar í vatnið við flötina en fjórum sinnum á ári eru kafarar sendir ofan í vatnið til þess að safna saman þeim boltum sem fara í vatnið.

Árið 1985 stóð golftímaritið Golf Digest fyrir keppni á vellinum þar sem að áhugamaðurinn Angelo Spagnolo gerði sér lítið fyrir og sló 27 bolta ofan í vatnið áður en að talsmenn keppninnar skipuðu honum að nota pútterinn og pútta boltanum eftir göngustígnum að flötinni. Spagnolo gerði eins og honum var sagt að gera en hann lék holuna á 66 höggum og alls notaði hann 257 högg á 18 holum!

mbl.is