Reynir að leiða skilaboðin hjá sér

Valdís Þóra Jónsdóttir á öðrum hring sínum á Opna NSW-mótinu …
Valdís Þóra Jónsdóttir á öðrum hring sínum á Opna NSW-mótinu í Ástralíu. Ljósmynd/LET

Valdís Þóra Jónsdóttir fékk óhjákvæmilega símtöl og skilaboð eftir frábæra frammistöðu sína á fyrsta hringnum á Opna NSW-mótinu í golfi í Ástralíu en hún er efst eftir tvo hringi á mótinu, sem er hluti af sjálfri Evrópumótaröðinni.

Íslendingur hefur aldrei fagnað sigri á móti í Evrópumótaröðinni í golfi, hvorki kona né karl, en Valdís á nú möguleika á að breyta því. Hún lék fyrsta hringinn á aðeins 63 höggum og fylgdi því eftir í nótt með því að leika á 70 höggum, eða einu höggi undir pari. Hún er því samtals á 9 höggum undir pari, með tveggja högga forskot á næsta kylfing.

„Þetta var nokkuð mikil barátta í dag ef ég á að segja eins og er. Ég sló ekki sérstaklega vel af teigunum, hitti bara brautina þrisvar samanborið við fjórum sinnum í gær. Höggin mín með járni voru ekki eins skörp og í gær svo ég er ánægð með að hafa farið á einu höggi undir pari miðað við hvernig ég hitti boltann. Takturinn var ekki góður hjá mér en hann kemur aftur á morgun,“ er haft eftir Valdísi í fréttatilkynningu frá Evrópumótaröðinni.

Valdís hefur leik á þriðja hring kl. 23.19 í kvöld að íslenskum tíma.

Spurð um þá andlegu raun að þurfa að fylgja eftir sínum besta hring sem atvinnukylfingur kvaðst Valdís ekki hafa velt sér mikið upp úr árangrinum fyrr en síminn fór að hringja og skilaboð að berast:

„Ég reyndi að hugsa ekki um þetta en Ísland er 11 klukkutímum á eftir Ástralíu og ég var alltaf að fá skilaboð í gær og í morgun þegar ég vaknaði, sem minntu mig á hvað ég hafði gert. Ég reyndi að leiða þau hjá mér og byrja frá grunni í dag,“ segir Valdís.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert