Tiger Woods langt frá efstu mönnum

Tiger Woods
Tiger Woods AFP

Kylfingurinn Tiger Woods átti töluvert betri annan dag á ZOZO Championship-mótinu í golfi sem fram fer í Kaliforníu en hann er engu að síður langt frá efstu mönnum.

Tiger lék Sherwood-völlinn á 76 höggum í gær og var á meðal neðstu manna en í gær spilaði hann annan hringinn á 66 höggum og er alls tveimur höggum undir pari. Tiger vann mótið í fyrra og hefur almennt verið sigursæll á þessum velli.

Bandaríkjamaðurinn Justin Thomas er efstur, er á fjórtán höggum undir pari eftir hringina tvo, en hann lék þá báða á 65 höggum. Dylan Frittelli frá Suður-Afríku og Bandaríkjamaðurinn Lanto Griffin koma næstir, höggi á eftir Thomas.

mbl.is