Tiger verður með á góðgerðamóti í desember

Tiger Woods.
Tiger Woods. AFP

Íþróttaáhugafólk mun geta fylgst með Tiger Woods spila golf á ný í desember þegar hann mun keppa með syni sínum á árlegu góðgerðamóti. 

PNC Championship fer fram 18. og 19. desember en mótið er liðakeppni þar sem tveir eru saman í liði. Keppendur eru kylfingar sem hafa unnið risamót á ferlinum og spila með einhverjum náum fjölskyldumeðlimi. 

Tiger mun leika með syni sínum Charlie og það hafa þeir gert áður því þeir voru með í mótinu í fyrra. Síðan þá hefur Tiger Woods ekki keppt á golfmóti en hann fótbrotnaði illa í bílslysi í febrúar á þessu ári eins og frægt er orðið. 

Justin Thomas vann mótið í fyrra ásamt föður sínum og þeir verða einnig með í ár. Tuttugu lið eru skráð til leiks en á meðal þeirra sem verða með í mótinu eru Gary Player, Tom Watson og Sir Nick Faldo. 

„Þótt árið hafi verið langt og fullt af áskorunum þá hlakka ég mjög til þess að ljúka árinu með því að leika á PNC Championship á samt syni mínum Charlie. Ég tek þátt sem pabbi og gæti ekki verið spenntari eða stoltari,“ sagði Tiger í tilkynningu á samfélagsmiðlum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert