Þykir þessi hópur vera spennandi

Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handknattleik karla t.v. og aðstoðarmaður ...
Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handknattleik karla t.v. og aðstoðarmaður hans Gunnar Magnússon. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Því verður ekki neitað að það eru um talsverðar breytingar á ræða á þessum hóp frá þeim sem verið hefur. Til staðfestingar eru fjórir nýliðar,“ sagði Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handknattleik karla í samtali við mbl.is eftir að hann tilkynnti um sinn fyrsta landsliðshóp í dag.

Nýliðarnir eru Viktor Gísli Hallgrímsson, markvörður úr Fram, Haukur Þrastarson, Selfossi, Alexander Örn Júlíusson, Val, og Ragnar Jóhannsson, leikmann Hüttenberg. Sá síðarnefndi hefur áður verið valinn til æfinga með landsliðinu en ekki tekið þátt í A-landsleik áður. Þá vekur athygli að leikreyndasti leikmaður landsliðsins til margra ára, Guðjón Valur Sigurðsson, er ekki í hópnum. Hann fær frí að persónulegum ástæðum að þessu sinni. Inn í hópinn koma leikmenn sem hafa verið fjarri góðu gamni í nokkur ár, Vignir Svavarsson liðsmaður Team Tvis Holstebro, Ólafur Bjarki Ragnarsson leikmaður West Wien, Ólafur Gústafsson leikmaður Kolding og Stefán Rafn Sigurmannsson hornamaður hjá Pick Szeged í Ungverjalandi.

Ólafur Gústafsson er kominn í landsliðið fimm ára hlé.
Ólafur Gústafsson er kominn í landsliðið fimm ára hlé. mbl.is/Árni Sæberg

„Meðal nýliðanna eru strákar sem er 16 og 17 ára. Það segir sína sögu um þá nýliðum sem í hópnum og þau kynslóðaskipti sem eru óhjákvæmileg vegna þess að menn eru hættir sem báru liðið uppi árum saman. Ég tel þennan hóp vera þann sterkasta sem við eigum völ á um þessar mundir en vissulega eru forföll einnig. Ásgeir Örn Hallgrímsson og Janus Daði Smárason eru úr leik að þessu sinni vegna meiðsla og Guðjón Valur Sigurðsson fékk leyfi frá landsliðinu að þessu sinni,“ sagði Guðmundur Þórður sem nýverið tók aftur við starfi landsliðsþjálfara, nærri sex árum eftir að hann hætti eftir Ólympíuleikana í London fyrir nærri sex árum.

„Ég hef lagt ómælda vinni í skoða upptökur með leikmönnum sem leika í Austurríki, Þýskalandi, Ungverjalandi, Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Íslandi.  Mér þykir þessi hópur sem ég hef valið vera spennandi. Ég hlakka til að takast á við það verkefni að byggja upp landsliðið með þessum strákum. Það er enginn vafi í mínum huga. Vissulega þurfa þessir strákar gott skipulag og það er mitt hlutverk að koma því heim og saman,“ sagði Guðmundur Þórður sem kallar hópinn saman til fyrstu æfingar mánudaginn 2.apríl en farið verður til Noregs til þátttöku í fjögurra liða móti sem stendur yfir frá 5. til 9. apríl.

Ólafur Bjarki Ragnarsson er sterkur miðjumaður. Hann fær tækifæri með ...
Ólafur Bjarki Ragnarsson er sterkur miðjumaður. Hann fær tækifæri með landsliðinu á nýjan leik eftir langt hlé. mbl.is/Ómar Óskarsson

Guðmundur Þórður segir einnig hafa farið vel yfir síðustu landsleiki Íslands undir stjórn forvera hans, Geirs Sveinssonar. Guðmundur vildi ekki nefna hvað betur hefði mátt fara í þeim leikjum að hans mati en undirstrikar að með nýjum mönnum verði alltaf breytingar. Slíkt sé óhjákvæmilegt.

„Ég mun koma inn með mínar áherslur. Meðal annars ætla ég að gera breytingar á varnarleiknum. Einnig verður munu menn sjá vissar breytingar á sóknarleiknum. Hinsvegar vil ég á þessu stigi ekki fara of mikið út í þessa þætti.  Eitt er þó víst að ég hef skýra sýn á hvernig ég vil að íslenska landsliðið  leiki, jafnt í vörn sem sókn. Síðan verður það að koma í ljós hvernig til tekst.“

Guðmundur Þórður segir það hafa verið að mjög vel ígrunduðu máli sem hann ákvað að kalla inn leikmennina Ólaf Bjarka Ragnarsson, Ólaf Gústafsson og Vigni Svavarsson inn í hópinn aftur. Þeir hafa verið fjarri góðu gamni um all langt skeið, sérstaklega þá nafnarnir.

„Ólafur Bjarki hefur öðlast nýtt líf sem handboltamaður á síðustu misserum eftir að hann kom til Austurríkis. Hann hefur verið meiðslalaus og ekki misst úr æfingu síðan í júlí í fyrra. Ólafur Bjarki formi  um þessar mundir og hefur getuna til þess að styrkja okkur um þessar mundir.  Nafni hans Gústafsson var í æfingahópnum hjá mér fyrir Ólympíuleikana 2012 og var nærri því að komast í lokahópinn sem miðjumaður í vörnina. Ólafur hefur leikið mikið með Kolding í vetur og ég hef rætt það við hann að ég vilji reyna hann í hjarta varnarinnar.

Hinn þrautreyndi landsliðsmaður Vignir Svavarsson er kominn í landsliðið á ...
Hinn þrautreyndi landsliðsmaður Vignir Svavarsson er kominn í landsliðið á nýjan leik. Hann var síðasta í landsliðshópnum fyrir HM 2017 en meiddist skömmu fyrir mótið og var ekki með. Ljósmynd/Foto Olympic

Vignir hefur átt mjög góðan vetur með Holstebro í dönsku deildinni. Hann kemur með mikla reynslu inn í hópinn, jafnt í vörn sem sókn. Valið á honum og fleirum er í samræmi við þá stefnu mína að velja í hvert sinn þá leikmenn sem leika hvað best um þær mundir sem landsliðið er valið.  Þessu meðal annars til staðfestingar er valið á Aroni Rafni Eðvarðssyni markverði. Hann hefur leikið vel upp á síðkastið þótt framan af vetri hafi hann ekki náð sér á strik.  Eins er með valið á Theodóri,“ sagði Guðmundur sem reyndar gerir undantekningu með valinu á Gísla Þorgeiri Kristjánssyni, miðjumanninum unga úr FH.

„Gísli Þorgeir hefur ekkert leikið með FH vegna meiðsla síðustu vikur. Vonandi verður hann klár þegar við byrjum æfingar.  Gísli Þorgeir er líka framtíðarmaður eins og Haukur Þrastarson sem ég var ekki endilega með inn í myndinni til að byrja með. Haukur hefur hinsvegar komið meiri og betur inn í myndina hjá mér eftir því sem leikjunum hefur fjölgað sem ég hef séð hann spila auk þess sem ég hef rætt mikið við þjálfara hans hjá Selfossi,“ sagði Guðmundur sem hefur lagt mikla vinnu í velta þeim 20 leikmönnum fyrir sér sem hann valdi í hóp sinn í dag.

Einnig vekur athygli að Guðmundur Þórður valdi nýliðann Alexander Örn Júlíusson í hóp sinn. Guðmundur ætlar Alexander ákveðið hlutverki í vörninni sem verður með tímanum að koma í ljós hvort Valsmaðurinn standi undir. „Alexander hefur ákveðna kosti sem varnarmaður ég hef hrifist af.  Hann er sterkur maður gegn manni og fljótur á fótunum. Ég vil hafa einn fljótan varnarmann sem getur komið út úr vörninni, ekki ósvipað hlutverk og Ingimundur Ingimundarson lék oft og tíðum. Hugsunin  á bak við valið á Alexander er þessi. Hann  vel þjálfaður og ég hef trú á honum. Síðan verður tíminn að leiða í ljós hvort hann standi undir þeim væntingum eða ekki enda hefur hann ekki oft leikið þessa stöðu í vörninni hjá Val þar sem hann er oftar en ekki í bakvarðarstöðu,“ sagði Guðmundur og bætti við.

„Ég er mjög sáttur við hópinn. Mér liður vel yfir valinu. Auðvitað veit ég að við erum ekki sterkir í öllum stöðum en þessi hópur er sá sterkasti sem ég tel völ á um þessar mundir og það verður skemmtilegt að vinna með honum.“

Mótið í Noregi í byrjun apríl verður mikil prófraun fyrir landsliðshópinn og Guðmund landsliðsþjálfara. Þar mætir íslenska landsliðið þremur af fimm sterkustu landsliðum heims um þessar mundir, að mati Guðmundar, liðum Noregs, Danmerkur og Frakklands.  „Við fáum ekki margar æfingar þannig að nauðsynlegt er að leikmenn mæti klárir í slaginn því við fáum bara fjórar til fimm æfingar til undirbúnings.“

Guðmundur segist hafa m.a. nýverið rætt við Alexander Petersson. Þeir hafi átt gott samtal en það hafi alveg verið skýrt af hálfu Alexanders að hann ætlaði ekki að breyta þeirri ákvörðun sinni sem hann tók fyrir tveimur árum að leika ekki fleiri landsleiki.

mbl.is