Fram tvöfaldur meistari 2018

Sigurbjörg Jóhannsdótitr og Steinunn Björnsdóttir voru kátar í kvöld.
Sigurbjörg Jóhannsdótitr og Steinunn Björnsdóttir voru kátar í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Fram tryggði sér Íslandsmeistaratitil kvenna í handknattleik með sigri á Val 26:22 í Safamýri í kvöld. Fram vann úrslitarimmuna 3:1 samtals. Fram er þar með tvöfaldur meistari því liðið sigraði einnig í bikarkeppninni í vetur. 

Valur vann fyrstaþ leikinn á Hlíðarenda, 25:22, en Fram vann 28.22 í Safamýri og síðan 29:25 á Hliðarenda. Fram vann því þrjá leiki í röð í rimmunni. 

Leikurinn var jafn og spennandi lengst af og skiptust liðin á að hafa forystuna. Fram var marki yfir að loknum fyrri hálfleik 14:13. 

Valur lék vel framan af í síðari hálfleik og var tveimur mörkum yfir þegar fjórtán mínútur voru eftir af leiknum. Þá hrökk Valsliðið í baklás og sóknir liðsins urðu stirðar og erfiðar. Framarar nýttu sér það og skoruðu fjögur mörk í röð. Fram var yfir sem eftir var leiksins en Valur náði að minnka muninn tvívegis niður í eitt mark. Valskonur gerðu hins vegar of mörg mistök á lokakafla leiksins til að ná að knýja fram oddaleik. 

Ragnheiður Júlíusdóttir var markahæst með 7/1 mark hjá Fram og Hildur Þorgeirsdóttir skoraði 6 mörk. Fram fékk því 13 mörk úr skyttustöðunum þótt Valur sé með hávaxna leikmenn í miðri vörninni. Guðrún Ósk Maríasdóttir varði 11 skot og tók við sér í síðari hálfleik. Díana Dögg Magnúsdóttir var markahæst hjá Val með 5 mörk, Diana Satkauskaité og Morgan Marie Þorkelsdóttir gerðu 4 hvor. Markverðir Vals vörðu 9 skot samtals. 

Tilkynnt var að leiknum loknum að Steinunn Björnsdóttir hefði verið valin besti leikmaður úrslitakeppninnar.  

Fram 26:22 Valur opna loka
60. mín. Leik lokið Leiknum er lokið með sigir Fram 26:22. Framarar fagna gríðarlega. Tvöfaldir meistarar í ár.
mbl.is