„Get tekið stóran hluta á mig“

Guðjón Valur Sigurðsson.
Guðjón Valur Sigurðsson. Picasa 2.0,Ljósmynd/Robert Spasovski

Landsliðsfyrirliðinn Guðjón Valur Sigurðsson leitaði ekki út fyrir eigin garð að atriðum sem betur hefðu mátt fara í leiknum gegn Litháen í undankeppni HM í Vilnius í dag. Sagðist Guðjón hafa farið illa með marktækifærin. 

„Við nýttum ekki fullt af marktækifærum og gerum þeim aðeins of auðvelt fyrir að hanga í okkur. Ég var með skotnýtinguna 0/4. Hefði ég skilað þessum fjórum skotum í markið þá hefðum við unnið með þriggja marka mun. Það er einföld stærðfræði,“ sagði Guðjón en tvívegis höfnuðu skot hans í markstöngunum og Giedrius Markunas, fyrrverandi markvörður Hauka, varði tvívegis frá Guðjóni. 

Lokastaðan var 28:27 fyrir Litháen en Íslendingar hafa gert athugasemdir við úrslit leiksins og sá möguleiki er enn til staðar að liðin geri jafntefli. „Ég er svekktur yfir úrslitunum. Mér finnst við vera betra lið. Færanýtingin fór með þetta og ég get tekið stóran hluta af því á mig. Okkur tókst ekki að skila markvörslu Bjögga eins oft í hraðaupphlaup og við vildum gera en mér fannst við þó spila vel að mörgu leyti. Í leiknum voru nokkrir ágætir hlutir en það er bara hálfleikur og þessi rimma er rétt að byrja,“ sagði Guðjón og leikur Litháa kom honum ekki á óvart.

„Við vissum hverjir þeirra hættulegustu menn eru og það kom á daginn. Við höfðum séð leiki með Litháen þar sem Frakkar unnu með einu marki og þar sem Litháen vann Noreg, lið sem við höfum átt erfitt með. Litháen er sterkt lið heim að sækja,“ sagði Guðjón Valur í samtali við mbl.is í Siemens Arena. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka