Vörnin var geggjuð

Sandra Erlingsdóttir, Val, í hörðum slag við leikmenn Hauka fyrr …
Sandra Erlingsdóttir, Val, í hörðum slag við leikmenn Hauka fyrr á keppnistímabilinu. Sandra og félagar hafa unnið báða leikin við Hauka í vetur nokkuð örugglega. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við vildum svara fyrir frammistöðuna á móti Fram á fimmtudaginn þegar við náðum okkur ekki fullkomlega á strik. Og okkur tókst sýna mikið betri leik núna,“ sagði Sandra Erlingsdóttir, leikmaður Vals, eftir stórsigur liðsins á Haukum, 30:16, í Olís-deild kvenna í handknattleik. Með sigrinum endurheimti Valur efsta sæti deildarinnar.

„Við byrjuðum að af krafti og voru 6:1 yfir eftir tíu mínútur og héldum okkar striki allt til leiksloka. Það var afar sterkt af okkar hálfu að halda dampi til síðustu mínútu og gefa Haukaliðinu aldrei tækifæri á að komast inn í leikinn,“ sagði Sandra sem var næst markahæst í Valsliðinu að þessu sinni með sex mörk, öll úr vítaköstum.

„Vörnin var geggjuð hjá okkur og sóknarleikurinn var yfirvegaður og flottur,“ sagði Sandra.

Framundan er hlé á keppni í Olís-deildinni fram í byrjun janúar þegar þráðurinn verður tekinn upp á ný. Sandra sagði mikilvægt að æfa vel á næstu vikum. Nú taki við nýtt undirbúningstímabil. „Við þurfum að nýta tímann til þess að stimpla okkur saman sem lið og mæta enn betri til leiks í janúar,“ sagði Sandra Erlingsdóttir, handknattleikskona hjá Val.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert