Ætlum okkur upp úr riðlinum

Andrea Jacobsen, landsliðskona í handknattleik og leikmaður Kristianstad í Svíþjóð.
Andrea Jacobsen, landsliðskona í handknattleik og leikmaður Kristianstad í Svíþjóð. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég er rosalega spennt enda farin að finna mig vel í hópnum eftir að hafa tekið þátt í nokkrum leikjum áður,“ sagði Andrea Jacobsen, landsliðskona í handknattleik í samtali við mbl.is í Skopje en Andrea er ein af lítt reyndari leikmönnum landsliðsins sem tekur þátt í undankeppni heimsmeistaramótsins sem hefst annað kvöld með leik við Tyrki í íþróttahöllinni sem kennd er við Boris Trajkovski í höfuðborg Makedóníu.

„Ég vonast til þess að sjálfsögðu að fá að spila sem mest en tek því hlutverki sem ég fæ enda gaman að vera hluti af þessum góða hóp sem hér er,“ sagði Andrea sem er úr Fjölni en hefur leikið í vetur með sænska úrvalsdeildarliðinu Kristianstad.

Íslenska liðið mætir Tyrkjum í annað kvöld, Makedóníu á laugardag og Aserum á sunnudag. Andrea segir tyrkneska liðið vera svolítið villt og leikur þess minni e.t.v. á landslið Kína og Japans sem íslenska landsliðið hefur tekist á við á síðustu vikum og mánuðum.  „Ég tel okkur hafa ráð við öllu. Í leiknum við Tyrki tel ég okkur verða að kúl á því, fá flot á boltann og leika okkur í færin.

Við ætlum okkur sigur í öllum leikjunum þremur og fara upp úr riðlinum. Hinsvegar verður við að einbeita okkur að einum leik í einum. Fyrst eru það Tyrkirnir,“ sagði Andrea Jacobsen, landsliðskona í handknattleik.

Mbl.is er með í för landsliðsins í Skopje og verður með þráðbeinar textalýsingar frá íþróttahöllinni af leik leikjum íslenska landsliðsins annað kvöld, á laugardag og sunnudag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert