Ungverjaland gerði Noregi greiða

Þórir Hergeirsson, þjálfari norska kvennalandsliðsins.
Þórir Hergeirsson, þjálfari norska kvennalandsliðsins. AFP

Ungverjar veittu Norðmönnum hjálparhönd þegar þeir lögðu Rúmena 31:29 í milliriðli tvö á Evrópumóti kvenna í handknattleik í Frakklandi í kvöld.

Noregur, Holland, Rúmenía og Ungverjaland hafa öll 6 stig en lokaleikurinn í milliriðlinum verður á milli Hollendinga og Þjóðverja í kvöld. Hollendingum dugar jafntefli til að komast í undanúrslitin en fari svo að Þjóðverjar vinni leikinn komast Norðmenn áfram í undanúrslitin ásamt Rúmenum. Fari svo að Holland vinni eða geri jafntefli fara Hollendingar áfram.

Staðan var jöfn 17:17 í hálfleik en í síðari hálfleik náðu Ungverjar frumkvæðinu og með frábærri vörn og markvörslu tókst þeim að knýja fram sigur. Noemi Hafra og Nadine Schatzl voru markahæstar í liði Ungverja með 6 mörk hvor en hjá Rúmenum var Cristina Neagu markahæst með 9 mörk en þessi frábæra handknattleikskona meiddist illa á hné þegar um 10 mínútur voru til leiksloka og kom ekki meira við sögu eftir það.

Nathalie Hagman var óstöðvandi í liði Svía og skoraði 17 …
Nathalie Hagman var óstöðvandi í liði Svía og skoraði 17 mörk. AFP

Hagman skoraði 17 mörk

Í milliriðli eitt gerðu Svíar sér lítið fyrir og unnu stórsigur gegn ólympíumeisturum Rússa 39:30. Rússar voru fyrir leikinn búnir að tryggja sér sæti í undanúrslitunum en Svíar halda í von um að fylgja Rússunum þangað. Rússar eru með 8 stig en Svíar og Frakkar hafa 5. Frakkar mæta Serbum í kvöld og dugar jafntefli til að komast áfram en fari svo að Serbar vinni mun markatala ráða því hvort það verði Svíar eða Frakkar sem fara áfram en liðin gerðu jafntefli 21:21 í riðlakeppninni.

Nathalie Hagman fór á kostum í liði Svía en hún skoraði 17 mörk úr 18 skotum. Daria Samokhina var markahæst hjá Rússum með 6 mörk.

mbl.is