Skjern valdi Patrek

Patrekur Jóhannesson.
Patrekur Jóhannesson. mbl.is/Hari

Patrekur Jóhannesson þjálfari karlaliðs Selfyssinga í handknattleik yfirgefur félagið eftir tímabilið og tekur við þjálfun danska meistaraliðsins Skjern. Frá þessu greinir austurríska handknattleikssambandið í Twitter-færslu í morgun. Samningur Patreks við Skjern er til þriggja ára.

Patrekur átti fund með forráðamönnum Skjern ekki alls fyrir löngu en hann var kallaður í viðtal ásamt fleiri þjálfurum sem komu til greina í starfið. Patrekur varð fyrir valinu og tekur formlega til starfa hjá danska liðinu 1. júlí 2019.

Hann leysir Ole Nørga­ard og Henrik Kron­borg af hólmi en undir þeirra stjórn varð Skjern danskur meistari á síðustu leiktíð. Liðinu hefur ekki gengið eins vel á þessu tímabili en það er í 7. sæti af 14 liðum í dönsku úrvalsdeildinni og er tíu stigum á eftir toppliði Aalborg. Björgvin Páll Gústavsson landsliðsmarkvörður og Tandri Már Konráðsson leika með liðinu en sá síðarnefndi yfirgefur félagið eftir tímabilið.

Patrekur tók við liði Selfyssinga fyrir síðustu leiktíð og hefur gert það afar gott með þetta unga lið. Samningur hans við félagið rennur út eftir tímabilið. Þá hefur Patrekur þjálfað austurríska landsliðið frá árinu 2011 og mun halda því starfi áfram en hann er samningsbundinn austurríska handknattleikssambandinu fram yfir Evrópumótið 2020 sem fram fer í Austurríki, Noregi og Svíþjóð.

mbl.is