Taplausar á árinu

Stefán Arnarson, þjálfari Fram, var að vonum ánægður með sigur ...
Stefán Arnarson, þjálfari Fram, var að vonum ánægður með sigur sinna kvenna í kvöld. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

„Ég er fyrst og fremst ánægður með að vinna hérna í kvöld og sigurinn er það eina sem skiptir máli,“ sagði Stefán Arnarson, þjálfari Fram, í samtali við mbl.is eftir 31:30-sigur liðsins gegn Haukum í 11. umferð Olísdeildar kvenna í handknattleik á Ásvöllum í kvöld.

„Í fyrri hálfleik voru þær að skora mikið eftir fráköst og þær áttu í vandræðum með varnarleikinn hjá okkur. Að sama skapi var sóknarleikurinn að ganga mjög vel en þetta datt mikið fyrir þær og okkur gekk illa að losna við þær. Sigurinn var samt sem áður sanngjarn, þótt við höfum bara unnið með einu marki. Það er sterkt að mæta hingað í Hafnarfjörðinn og vinna, sérstaklega í ljósi þess, að þær voru að skora mikið af ódýrum mörkum sem við hefðum getað látið fara í taugarnar á okkur.“

Stefán segir að deildin í ár sé mun jafnari en hún var í fyrra og að hans stúlkur þurfi að vera á tánum í hverjum einasta leik þar sem Framliðið sé það lið sem öll önnur lið í deildinni vilja vinna enda ríkjandi Íslandsmeistarar. 

„Við erum taplausar á árinu sem er jákvætt. Þetta verður áfram barningur en ef við vinnum vel í okkar málum þá er ég bjartsýnn. Deildin í ár er mun jafnari en hún var í fyrra og það er enginn auðveldur leikur í þessari deild. Við erum liðið sem allir vilja vinna og þess vegna þurfum við að vera á tánum í hverjum einasta leik,“ sagði Stefán Arnarson í samtali við mbl.is.

mbl.is