Sú efnilegasta lét erfið meiðsli ekki stoppa sig

Berta Rut Harðardóttir.
Berta Rut Harðardóttir. mbl.is/Hari

„Við erum búnar að spila flottan bolta, þó það séu einstaka leikir inni á milli þar sem vantaði aðeins upp á. En þegar við spilum eins og við viljum gera þá getum við unnið öll liðin í þessari deild,“ sagði Berta Rut Harðardóttir, leikmaður Hauka, við Morgunblaðið en hún er í liði umferðarinnar að mati blaðsins eftir 14. umferð Olís-deildar kvenna í handknattleik.

Berta skoraði sjö mörk fyrir Hauka sem vann Stjörnuna á útivelli, 28:23, en Berta er næstmarkahæsti leikmaður Hauka á tímabilinu. Hún hefur skorað 62 mörk í 14 leikjum fyrir Haukaliðið sem er í þriðja sæti deildarinnar, fimm stigum á eftir toppliði Vals. Haukar töpuðu fyrsta leik á nýju ári en hafa nú unnið þrjá leiki í röð eftir að deildin hafði verið í fríi frá því um miðjan nóvember.

„Þetta var heldur langt frí. Tímabilið var nýbyrjað og búin að vera landsliðspása líka. En við gerðum bara gott úr því og það er fínt fyrir þær sem eru að glíma við meiðsli að hafa tíma til að jafna sig. Okkur gekk vel fyrir áramót en þurftum bara að slípa saman það sem vantaði bæði í vörn og sókn. En liðsheildin er það góð hjá okkur að það vantaði aldrei mikið upp á,“ sagði Berta, en hún er aðeins 18 ára og var valin efnilegasti leikmaður deildarinnar í fyrra.

„Það var mjög skemmtileg viðurkenning eftir að hafa átt mjög gott tímabil. Þetta var fyrsta tímabilið mitt þar sem ég var með hlutverk í meistaraflokki og ég var ekki að búast við þeirri viðurkenningu, enda margir ungir leikmenn sem höfðu verið að spila vel. Þetta var mikil gulrót og ég vildi halda áfram núna því sem ég var að gera í fyrra.“

Enn aum eftir ljótt brot

Berta átti afar gott tímabil með Haukum í fyrra og skoraði 87 mörk í 21 leik þegar Haukar enduðu í fjórða sæti deildarinnar. Í fyrsta leik úrslitakeppninnar gegn Val síðastliðið vor meiddist hún hins vegar illa á rist eftir fólskulegt brot, þurfti í gips og spilaði ekki meira um vorið. Hún jafnaði sig í tæka tíð fyrir heimsmeistaramót U20 ára landsliða í sumar, en viðurkennir að hún sé enn að glíma við afleiðingar meiðslanna.

„Ég var ekki orðin nógu góð á HM, en gat alveg spilað og allt það. Ég var samt ennþá í veseni. Ég næ alveg að æfa á fullu núna, þetta er bara eitthvað sem þarf tíma til þess að jafna sig. Tími er ekki það sem maður hefur mest af samt og ég finn ennþá fyrir þessu, en það stoppar ekki minn leik,“ sagði Berta og þótt brotið sem hún varð fyrir hafi verið ljótt er hugarfar hennar til fyrirmyndar.

Sjá allt viðtalið við Bertu og úrvalslið 14. umferðar í Olís-deildinni í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert