Væri fínt að spila alltaf í Höllinni

Viktor Gísli Hallgrímsson átti stórleik í marki Íslands í dag …
Viktor Gísli Hallgrímsson átti stórleik í marki Íslands í dag og varði 19 skot. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ef ég á að vera alveg hreinskilinn þá undirbjó ég mig eins og ég hef alltaf gert,“ sagði Viktor Gísli Hallgrímsson, markmaður íslenska karlalandsliðsins í handknattleik, í samtali við mbl.is eftir 32:22-sigur liðsins gegn Tyrklandi í undankeppni EM í Laugardalshöll í dag en Viktor átti stórleik í markinu og varði 19 skot í leiknum.

„Þetta var einn af mínum bestu leikjum á ferlinum, því verður ekki neitað. Við vorum ekkert frábærir í fyrri hálfleik en þetta small saman hjá okkur í seinni hálfleik og það er frábært að fá tækifæri til þess að spila með þessu liðið. Ég fór vel yfir Tyrkina með Tommy (Tomas Svensson, markmannsþjálfara íslenska liðsins) fyrir leik og þeir skutu á nákvæmlega sömu staði og hann var búinn að spá fyrir um og þetta gekk í raun bara eins og í sögu.“

Viktor var að spila sinn fyrsta A-landsleik í Laugardalshöllinni og hefði ekki getað byrjað betur en hann var besti maður liðsins í dag.

„Þetta var fyrsti leikurinn minn í Laugardalshöllinni og þetta var frábær upplifun fyrir mig persónulega og það skemmir ekki að hafa átt góðan leik. Stuðningurinn var frábær og það væri fínt að fá að spila alla leiki í höllinni bara hér eftir.“

Markmaðurinn ungi, sem er fæddur árið 2000, kom nokkuð óvænt inn í landsliðið í apríl fyrir útleikinn gegn Norður-Makedóníu og hefur stimplað sig vel inn í hópinn síðan.

„Ég og Ágúst Elí Björgvinsson erum búnir að vinna mjög vel saman síðan við komum inn í þetta og vonandi heldur það samstarf áfram. Það hefur verið góður stígandi í liðinu að undanförnu og núna er bara að byggja ofan á þennan góða sigur,“ sagði Viktor Gísli í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert