„Þeir voru betri en við í dag“

Grímur Hergeirsson ræðir við sína menn.
Grímur Hergeirsson ræðir við sína menn. Ljósmynd/Guðmundur Karl

„Þetta var engan veginn nógu gott. Við fengum á okkur 35 mörk. Þú vinnur ekki handboltaleik með svoleiðis frammistöðu,“ sagði Grímur Hergeirsson, þjálfari Selfoss, eftir tapið gegn ÍR í Olísdeild karla í handbolta í kvöld.

ÍR sótti Íslandsmeistarana heim á Selfoss og vann öruggan sigur, 35:28.

„Það var mjög góð 6-0 vörn hjá okkur í byrjun þar sem ÍR átti mjög erfitt með að komast í færi. Svo einhvern veginn dettum við niður og töpum mikið maður á mann, sérstaklega í seinni hálfleik, sem er ólíkt okkur. Ég kann ekki skýringar á því núna en við skoðum þetta með gagnrýnum augum og finnum hvað það er sem þarf að laga,“ sagði Grímur ennfremur.

ÍR hafði góð tök á leiknum í seinni hálfleik en Selfoss fékk nokkrum sinnum tækifæri til þess að minnka muninn í tvö mörk og komast inn í leikinn, en það tókst aldrei.

„Mestmegnis vegna þess að við fengum alltaf mark á okkur. Vörnin hélt ekki. Það er erfitt að vinna upp svona forskot ef þú færð ekki stopp eða varða bolta. ÍR-ingar voru bara öflugir og leystu þetta vel. Það lá alveg fyrir að þeir eru með fantagott lið og geta unnið hvaða lið sem er í deildinni þannig að þetta var ekkert sem kom okkur á óvart. Þeir voru betri en við í dag og því fór sem fór,“ sagði Grímur að lokum.

mbl.is