Aron og félagar voru óstöðvandi

Aron Pálmarsson í leik með Barcelona.
Aron Pálmarsson í leik með Barcelona.

Aron Pálmarsson og félagar í Barcelona hrukku heldur betur í gang í Meistaradeild Evrópu í handknattleik í kvöld þegar þeir rótburstuðu Celje Lasko frá Slóveníu á heimavelli, 45:21.

Aron var óstöðvandi fyrstu tíu mínútur leiksins þegar hann skoraði tvö mörk og átti tvær stoðsendingar en hann gerði þrjú mörk í leiknum. Barcelona var 21:13 yfir í hálfleik og valtaði síðan gjörsamlega yfir Slóvenana í seinni hálfleiknum.

Fjórtán leikmenn skoruðu mörk Barcelona í leiknum og Luka Cindric var markahæstur þeirra með átta mörk.

Barcelona fékk þar með sín fyrstu stig í A-riðlinum á tímabilinu en liðið tapaði fyrir Pick Szeged í Ungverjalandi, 31:28, í fyrstu umferðinni.

mbl.is