Fjórði sigur Valsmanna í röð

Stiven Tobar Valencia sækir að marki KA í kvöld.
Stiven Tobar Valencia sækir að marki KA í kvöld. mbl.is/Hari

Valur komst upp í fjórða til sjötta sæti deildarinnar með 11 stig eins og Selfoss og FH eftir öruggan átta marka sigur á KA, 31:23, í upphafsleik tíundu umferðar Olís-deildar karla í handknattleik í Origo-höllinni á Hlíðarenda í kvöld. Valur var með tveggja marka forskot, 13:11, að loknum kaflaskiptum fyrri hálfleik. Þetta var fjórði sigur Vals í röð í deildinni.

Leiknum var flýtt vegna þátttöku Vals í Evrópukeppni félagsliða um næstu helgi.

Bæði lið höfðu átt góðu gengi að fagna fyrir leikinn í gærkvöldi. Valur unnið þrjá leiki í röð og KA unnið tvær viðureignir og gert eitt jafntefli.

Valsmenn byrjuðu leikinn frábærlega. Þeir skoruðu sjö af fyrstu níu mörkum leiksins og virtust ætla að keyra yfir gesti sína að norðan. Hreiðar Levý Guðmundsson fór hamförum í markinu og fékk aðeins á sig tvö mörk á fyrstu 12 mínútum leiksins. Síðan tók við tíu mínútna kafli þar sem Valur skoraði ekki mark. KA-menn nýttu sér vel að vera manni fleiri í tvígang auk þess sem þeim tókst að finna leiðir framhjá Hreiðari og ekki spillti það fyrir að Hreiðar yfirgaf markið um skeið til þess að hleypa aukamanni í sóknina þegar Valur var manni færri. Skyndilega var leikurinn jafn, 7:7, eftir liðlega 20 mínútur. Valsmenn gáfu aðeins á lokakaflanum og voru tveimur mörkum yfir í hálfleik, 13:11.

Heimamenn voru kraftmiklir í upphafi síðari hálfleiks og eftir tíu mínútur voru þeir komnir með sex marka forskot, 19:13. Baráttuglaðir KA-menn gáfu hinsvegar ekkert eftir. Þeir reyndu hvað þeir gátu til að saxa á forskotið. Allt kom fyrir ekki og ekki bætti úr skák að sóknarleikur KA var á tíðum ekki góður. Valsmenn gáfu ekki þumlung eftir unnu öruggan og sanngjarnan sigur með átta marka mun, 31:23. Munurinn jókst aðeins á lokakaflanum þegar leikurinn leystist aðeins upp.

Anton Rúnarsson skoraði sjö mörk fyrir Val og Finnur Ingi Stefánsson var næstur með sex mörk eftir að hafa haft sig mikið í frammi í síðari hálfleik.  Dagur Gautason var markahæstur hjá KA með sjö mörk. Næstur var Patrekur Stefánsson með fjögur mörk.

Markverðir Vals, Hreiðar Levý og Daníel Freyr, skiptu leiknum á milli sín og stóðu sig afar vel. Samanlagt vörðu þeir á þriðja tug skota fyrir aftan frábæra vörn Valsliðsins sem KA-liðið átti erfitt með að hreyfa til.

Hvorugt liðið fær sérstakt hrós fyrir sóknareikinn að þessu sinni. Hann var lengi vel mistækur og á tíðum talsvert stórkallalegur í bland við óttalegt hnoð.  Síðasti stundarfjórðungurinn var bestur af hálfu Valsliðsins í sókninni. 

Skarð var fyrir skildi í liði KA. Áki Egisnes meiddist á hné snemma leiks við FH á sunnudaginn og var ekki leikfær að þessu sinni. Dró það verulega úr skotógn KA-manna enda Áki verið einn aðsópsmesti sóknarmaður KA-liðsins. Róbert Aron Hostert lék heldur ekki með Val vegna meiðsla. Til viðbótar þá samningi Vals við Svein Aron Sveinsson sagt upp í gær, eins kom fram í fréttum.

Valur 31:23 KA opna loka
60. mín. Agnar Smári Jónsson (Valur) skoraði mark
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert