Naumur sigur Aftureldingar í Safamýri

Afturelding er einu stigi frá toppliðinu.
Afturelding er einu stigi frá toppliðinu. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Afturelding er einu stigi frá toppliði Hauka eftir nauman 23:22-sigur á Fram á útivelli í Olísdeild karla í handbolta í dag. Afturelding náði sjö marka forskoti snemma í seinni hálfleik en Framarar neituðu að gefast upp. 

Staðan, úrslit og næstu leikir í Olísdeild karla

Afturelding var skrefinu á undan í fyrri hálfleik og var staðan í leikhléi 12:9. Gestirnir byrjuðu betur í seinni hálfleik og var staðan orðin 17:10 á 37. mínútu. Framarar lögðu hins vegar ekki árar í bát og skoruðu átta af næstu níu mörkunum og var staðan 18:18 þegar skammt var eftir. 

Mosfellingar voru hins vegar sterkari í lokin og tryggðu sér tvö stig. Birkir Benediktsson skoraði sex fyrir Aftureldingu og Guðmundur Árni Ólafsson gerði fimm. Þorgrímur Smári Ólafsson skoraði fimm fyrir Fram og Matthías Daðason gerði fjögur. 

Í Kórnum hafði ÍR betur á móti HK, 34:26. Leikurinn var jafn framan af, en ÍR-ingar sigu fram úr undir lok fyrri hálfleiks og var staðan í leikhléi 16:11. ÍR hélt áfram að bæta í forskotið og vann að lokum öruggan sigur. 

Kristján Orri Jóhannsson skoraði níu mörk fyrir ÍR og Hafþór Már Vignisson átta. Jóhann Birgir Ingvarsson og Kristófer Dagur Sigurðsson gerðu sex mörk hvor fyrir HK. 

ÍR hafði betur gegn botnliðinu.
ÍR hafði betur gegn botnliðinu. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is