Hefur ekki áhrif á starf hans sem landsliðsþjálfari

Guðmundur Þórður Guðmundsson tekur við liði Melsungen.
Guðmundur Þórður Guðmundsson tekur við liði Melsungen. mbl.is/RAX

Handknattleikssamband Íslands segir að ráðning Guðmundar Þ. Guðmundssonar sem þjálfara þýska 1. deildarfélagsins Melsungen út þetta tímabil hafi engin áhrif á störf hans sem landsliðsþjálfara karla.

Ísland leikur í umspili um sæti á HM 2021 í júní og Guðmundur verður þar við stjórnvölinn.

Í tilkynningu frá HSÍ segir:

Guðmundur hefur verið í samráði við HSÍ allt frá viðræður hófust og mun þetta ekki hafa nein áhrif á störf Guðmundar sem landsliðsþjálfari.

Áður hefur Guðmundur þjálfað bæði hjá Dormagen og Rhein-Neckar Löwen í efstu deild í Þýskalandi, en hann hefur mikla reynslu bæði sem þjálfari félagsliða og landsliða.

HSÍ óskar Guðmundi góðs gengis hjá Melsungen.

mbl.is