Gamla ljósmyndin: Hékk í loftinu

Morgunblaðið/Þorkell

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Í níunda áratugnum sögðu íþróttablaðamenn gjarnan um Atla Hilmarsson, fyrrverandi atvinnumann og landsliðsmann í handknattleik, að hann gæti hangið í loftinu. Var þessi lýsing notuð í viðleitni til að lýsa töktum Atla á handboltavellinum og stökkkrafti. Þegar Atli lyfti sér upp fyrir framan varnarvegg andstæðinganna var engu líkara en hann gæti fengið sér sæti í loftinu og hinkrað eftir því að varnarmennirnir lentu aftur á gólfinu áður en hann lét vaða á markið. 

Meðfylgjandi mynd fangar ágætlega stökkraft Atla en hún birtist í Morgunblaðinu hinn 18. mars árið 1988. Atli hafði þá skorað sigurmark Fram gegn Víkingi í bikarleik í Laugardalshöllinni. Með þessum úrslitum lauk sigurgöngu Víkingsliðsins sem fram að þessu hafði unnið annað hvort Íslandsmótið eða bikarkeppnina í áratug. 

Myndina tók Þorkell Þorkelsson sem lengi myndaði fyrir Morgunblaðið og mbl.is. Þar er Atli að skora eitt af ellefu mörkum sínum í leiknum fyrir Fram. Samherjar hans Hannes Leifsson (15) og Birgir Sigurðsson línumaður sjást einnig á myndinni. Birgir lék einmitt í mörg ár með Víkingi síðar á ferlinum og ef til vill muna fleiri eftir honum sem leikmanni Víkings en Fram. Á myndinni sjást einnig Víkingarnir Hilmar Sigurgíslason og Einar Jóhannesson. 

Atli Hilmarsson lék með Fram, FH, Breiðabliki, þýsku liðunum Hameln, Bergkamen, Günzburg og Leverkusen en einnig Granollers á Spáni á leikmannaferlinum. Frá 1997 þjálfaði Atli lið KA, Friesenheim, FH, Akureyrar og kvennalið Stjörnunnar. Karlalið KA og kvennalið Stjörnunnar urðu Íslandsmeistarar undir hans stjórn. 

Atli keppti á tvennum Ólympíuleikum. Var í liði Íslands sem hafnaði í 6. sæti í Los Angeles 1984 og í 8. sæti í Seoul 1988. Hann lék 134 landsleiki og skoraði 391 mark en bestu landsleikir Atla voru líklega á HM í Sviss þegar Ísland hafnaði í 6. sæti. Hann átti mikinn þátt í góðum endaspretti Íslands í mikilvægum sigri á Rúmeníu og var markahæstur með 8 mörk þegar Ísland rassskellti Dani í sama móti 25:16. 

Þess má geta að börn Atla hafa öll verið áberandi í afreksíþróttum. Arnór var liði  Íslands sem vann til verðlauna á ÓL 2008 og EM 2010 eins flestir þekkja. Þorgerður Anna lék einnig fyrir Ísland á stórmótum í handknattleik og Davíð Örn leikur með Íslands- og bikarmeisturum Víkings í knattspyrnunni. 

Keppni í efstu deild á Íslandsmótinu hófst á fimmtudaginn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert