Þær eru algjörir sigurvegarar

Eyjakonur fagna deildarmeistaratitlinum.
Eyjakonur fagna deildarmeistaratitlinum. Ljósmynd/Sigfús@ibv.is

Sigurður Bragason, þjálfari ÍBV, stýrði liði sínu til fyrsta deildarmeistaratitils meistaraflokks kvenna í handknattleik í 19 ár.

Þetta gerði lið hans í 20. sigurleik liðsins hérlendis í röð, sem er magnað afrek. Liðið sigraði Selfoss 41:27 í Vestmannaeyjum í dag, sigurinn var innsiglaður með 10:0 kafla um miðbik síðari hálfleiks.

„Ég er rosalega stoltur, það er hárrétta orðið, ég er svo ánægður að með að klára aftur dós auðvitað, en ég er líka svo ánægður með þennan hóp, hvernig við erum, hvernig standið er á okkur, hvernig mórallinn er, hvernig leikgleðin er, hvernig samheldnin er og fólkið okkar. Ég gæti ekki verið stoltari.“

Liðið hefur unnið 20 leiki í röð hér á landi, það er eitthvað sem eflaust hefur ekki oft sést hérlendis í hópíþróttum.

„Ég var að láta menn fletta því upp, en þeir finna þetta ekkert, þetta er unique, það eru engin jafntefli inni í þessu, þetta eru 20 sigurleikir í röð. Ég er stoltur af þeim og sýnir hvert við erum komin, það er sama hvaða leikur það er, sigurhugsunin er til staðar.“

Fyrsti sigurinn í sigurgöngunni var eins marks útisigur á Haukum, sá Sigurður það fyrir á hvaða stað liðið væri nú 20 leikjum seinna?

„Alls ekki, eftir fyrstu umferð vorum við búnar að tapa tveimur leikjum, báðum á heimavelli, ég var hræddur við að þetta yrði bara svipað og hin tvö árin á undan. Það má heldur ekki gleyma því að þetta voru fyrstu leikirnir með Birnu (Berg Haraldsdóttur) og Hönnu (Hrafnhildi Hönnu Þrastardóttur) í langan tíma. Við vorum smá stund að spila okkur í gang, það komu svo breytingar, við skiptum út útlendingi og fórum að setja Elísu inn í þetta. Þetta hefur þróast og við erum að bæta okkur, ég sem þjálfari get líka verið stoltur af því, við erum að halda áfram. Nú þarf ég að ná liðinu á jörðina,“ segir Sigurður en hann telur að það muni ganga vel, miðað við hvernig það gekk eftir bikarmeistaratitilinn.

„Við urðum bikarmeistarar á laugardaginn, við spiluðum deildarleik þremur dögum seinna sem við sigruðum auðveldlega, ég kom þeim auðveldlega á jörðina þar. Þær eru algjörir sigurvegarar, þær eru ekkert hættar og eru örugglega að fara að verða Íslandsmeistarar líka í hausnum. Það er nú bara þannig að það er nýtt mót, það byrja allir á jöfnu þar, það eru engin stig þar. Valur ætlar að gera það líka, Stjarnan ætlar að gera það líka, Fram ætlar að gera það líka. Við verðum með í þessari baráttu, það er á hreinu.“

Síðast er ÍBV vann deildina, árið 2004, þá vann liðið fernuna, er það eitthvað sem liðið er að horfa á?

„Það er engin spurning, KA/Þór vann þetta allt saman fyrir tveimur árum, var það ekki Valur sem gerði það líka? Það er í tísku að taka þetta allt, það er ekkert ólíklegt að besta liðið vinni allt, ég held að við séum klárlega í top 3 yfir bestu liðin. Þannig að sjálfsögðu ætlum við að reyna að vinna allt.“

Mætingin í Íþróttamiðstöð Vestmannaeyja í dag var frábær, sýnir þetta hve miklu máli þetta skiptir fyrir Vestmannaeyinga?

„Ég held að allir finni það að við leitum í gleði og þessi partý, samstöðuna og allt þetta. Það er rosalega eyjalegt, við getum ekki gleymt að það er búið að leggja á sig ýmislegt, það er stundum ekki svona gaman. Eins og þetta var núna, full stúka í næst síðasta deildarleik, það sýnir samstöðuna í fólkinu.“

Liðið hefur nú unnið tvo titla á einni viku eftir þó nokkur ár hjá Sigurði án þess að vinna titil, er þetta mikið spennufall?

„Algjörlega, ég get alveg sagt það að eftir bikarhelgina var ég bara tvo daga að jafna mig. Ég var fyrir það farinn að hugsa hvort ég ætlaði að vera þjálfari hérna í einhver ár og ekki vinna neitt. Það var mikill léttir og þessi er mjög þægilegur, þetta hefur verið upp og niður en það er partur af þessu. Þetta eru sveiflur, geðsveiflur, erfiðar nætur og alls konar pælingar, þegar maður uppsker er það allt þess virði.“

Lykillinn að sigri í dag var orkan og gleðin segir Sigurður.

„Það var orkan og gleðin, þeir voru lykilþættirnir í dag, að við færum ekki inn í þennan leik með fulla stúku og ætluðum okkur að gera þetta með vinstri. Þær voru ekki með fullan hóp, búið að óska okkur til hamingju, verið að undirbúa partý fyrir leik, það er allt stórhættulegt. Ég lagði mikið upp úr því að byrja leikinn vel fyrstu 15 mínúturnar og ég myndi bara skipta strax ef það væru einhverjar ekki klárar.“

Eyjakonur klára leikinn með 10:0 kafla í síðari hálfleik þar sem þær breyta stöðunni úr 25:19 í 35:19, fyrir það var leikurinn allavega ekki alveg búinn.

„Ég ætla ekki að taka af Selfossi það að við vorum í basli með þær í fyrri hálfleik, við skorum 21 mark en þær skora 15. Við erum með ágætis varnarlínu og ágætis markmann, Katla (María Magnúsdóttir) var bara frábær hérna í dag. Ég var að reyna að leggja áherslu á að stoppa hana, það gekk betur í seinni. Ég tek ekkert af þessum Selfoss stelpum, þær voru að reyna en áttu við ofurefli að etja, allavega á 60 mínútum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert