Stuðningsmenn skiptust á treyjum eftir leik

Stuðningsmenn Íslands voru til fyrirmyndar eins og svo oft áður.
Stuðningsmenn Íslands voru til fyrirmyndar eins og svo oft áður. AFP

„Ég er pínu leið en þetta var frábær leikur hjá strákunum. Þó að hann hafi endað svona þá var leikurinn mjög skemmtilegur á að horfa – þetta var góður handbolti,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, stjórnmálamaður og fyrrverandi handknattleikskona, í samtali við mbl.is. „Strákarnir stóðu sig mjög vel og Aron [Pálmarsson] er náttúrulega í klassa fyrir ofan heimsklassa,“ bætir hún við.

Þorgerður var nýkomin upp á hótel eftir fjörugan dag í München þegar mbl.is náði tali af henni. Hún segist hafa farið á stórmót í handknattleik í næstum 40 ár en sjaldan upplifað eins mikla stemningu og fyrr í kvöld.

„Allir voru ótrúlega hressir, stemningin fyrir leik var mjög góð og hún jókst hægt og sígandi,“ segir Þorgerður sem telur að milli 800 og 1000 Íslendingar hafi verið í München. Króatar voru einnig fjölmennir segir hún.

Baráttan var gífurlega hörð.
Baráttan var gífurlega hörð. AFP

Falleg stund hjá stuðningsmönnum

„Það voru mjög margir Króatar á leiknum, þetta er mikil boltaþjóð hvort sem það er í handbolta, fótbolta, körfubolta eða sundknattleik. Þeir fylgja sínu liði mjög vel og eru mjög háværir,“ segir hún en bætir við að enginn rígur hafi verið milli stuðningsmanna Íslands og Króatíu.

„Stuðningsmenn skiptust á treyjum eftir leik og þetta var allt mjög fallegt. Gleði fyrir leik á báða bóga og hógværð eftir á – ekkert rugl í gangi.“

Þorgerður er bjartsýn fyrir næsta leik Íslendinga á móti Spáni á sunnudag. „Við vinnum hann með tveimur mörkum,“ segir hún að lokum.

Stuðningsmenn Króata fylgjast spenntir með.
Stuðningsmenn Króata fylgjast spenntir með. AFP
Þorgerður Katrín var ánægð með frammistöðu íslensku strákanna.
Þorgerður Katrín var ánægð með frammistöðu íslensku strákanna. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert