Vantaði herslumuninn hjá okkur

Luka Stepancic sækir að íslensku vörninni í leiknum í kvöld.
Luka Stepancic sækir að íslensku vörninni í leiknum í kvöld. AFP

„Því miður þá voru kaflarnir í lok fyrri hálfleiks og í lok þess seinni okkur dýrir. Þá sýndu Króatar hvers þeir eru megnugir,“ sagði Ólafur Andrés Guðmundsson, landsliðsmaður í handknattleik við mbl.is eftir fjögurra marka tap íslenska landsliðsins, 31:27, landsliði Króatíu á heimsmeistaramótinu í handknattleik í Ólympíuhöllinni í München í kvöld.

„Lengst af gekk sóknarleikur okkar frábærlega og eins vorum við með fínar lausnir gegn þeim í varnarleiknum, svona lengst af, og náðum að koma þeim í vandræði. Okkur vantaði bara herslumuninn upp á að vinna þá,“ sagði Ólafur sem sagði erfitt að leggja mat á það fáeinum mínútum eftir að flautað var til leiksloka hvað það var sem brást hjá íslenska liðinu á lokakaflanum eftir að hafa verið komið með tveggja marka forskot.

„Við stjórnuðum leiknum á góðum köflum og áttum að geta farið með sigur úr býtum. Kannski vorum við ekki nógu klókir á lokakaflanum.  Við eigum eftir að fara vel yfir leikinn í kvöld og draga lærdóm af honum. Það verður samt ekki af Króötum tekið að þeir gerðu vel á lokakaflanum, eitthvað sem við getum örugglega lært af,“ sagði Ólafur og bætti við að þrátt fyrir tap geti liðið tekið margt jákvætt með sér inn í næstu leiki mótsins. 

„Við erum hundsvekktir af hafa ekki  fengið neitt úr þessum leik gegn þrautreyndu landsliði Króata sem hefur leikið saman árum saman,“ sagði Ólafur Andrés Guðmundsson, landsliðsmaður í handknattleik karla í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert