„Þeir eru gott lið og þið eruð með frábæra áhorfendur“

Goran Dragic stekkur upp og reynir að verja skot Jóns …
Goran Dragic stekkur upp og reynir að verja skot Jóns Arnórs Stefánssonar í leik Slóveníu og Íslands í Hartwall-höllinni í Helsinki. Skúli B. Sigurðsson

 „Íslenska liðið barðist vel,“ sagði Goran Dragic, bakvörður slóvenska landsliðsins eftir sigurinn á Íslandi, 102:75, í Helsinki í dag. „Maður sá það í fyrstu þremur leikjunum. Það er mikil hreyfing á liðinu, þeir stinga sér í gegn, láta boltann ganga vel og maður er alltaf á hælunum á móti þeim. Það er erfitt.“

Slóvenar unnu öruggan 102:75 sigur á Íslandi eftir að leikurinn hafði verið jafn í upphafi. Slóvenar eru efstir í A-riðli Evrópumótsins með fjóra sigra.

 „Íslenska liðið barðist vel,“ sagði Dragic, sem leikur með NBA-liðinu Miami Heat þegar mbl.is ræddi við hann eftir leikinn. „Maður sá það í fyrstu þremur leikjunum. Það er mikil hreyfing á liðinu, þeir stinga sér í gegn, láta boltann ganga vel og maður er alltaf á hælunum á móti þeim. Það er erfitt.“

Dragic sagði að í seinni hálfleik hefði íslenska liðið ekki hlaupið jafn mikið, ef til vill vegna þreytu. „Kannski var það munurinn,“ sagði  hann. „Þeir eru gott lið og þið eruð með frábæra áhorfendur og þetta var góður leikur fyrir okkur.“

Íslenska liðið hóf leikinn af krafti og var yfir eftir fyrsta leikhluta, 25:23. Í öðrum leikhluta snerist taflið við. Slóvenar skoruðu 37 stig á móti 18 stigum Íslendinga, staðan 43:60 og munurinn orðinn 17 stig.

„Fyrsti leikhlutinn var mjög slæmur fyrir okkur, sérstaklega í vörninni,“ sagði Dragic. „Við gerðum breytingar, reyndum svæðisvörn, en þeir skoruðu auðveldlega, þannig að við fórum aftur að spila maður á mann og fara í skotin hjá þeim.

Dragic hefur verið í miklum ham í leikjum Slóveníu í A-riðli í Helsinki. Hann var stigahæstur í dag með 21 stig, tók fjögur fráköst og gaf fjórar stoðsendingar. Slóvenía er eina liðið sem hefur unnið alla sína leiki og með sigri á móti Frökkum á morgun yrðu þeir efstir í riðlinum.

„Markmið okkar er að ná verðlaunasæti,“ sagði hann. „Við æfðum mikið fyrir mótið, fórum í tveggja mánaða æfingabúðir. Liðið okkar er góð blanda af ungum leikmönnum og reyndum leikmönnum og alla dreymir um medalíu. Það er leyfilegt að láta sig dreyma og vonandi höfum við betur þegar kemur í þessa stóru leiki.“

Frakkar töpuðu fyrsta leik sínum í riðlinum gegn Finnum, en hafa nú unnið tvo leiki í röð og spila á eftir við Grikki. Frakkar eru farnir að beita sálfræði og segja nú að Slóvenía sé sigurstranglegasta liðið í riðlinum.

„Við hugsum ekkert um slíkt,“ sagði Dragic. „Við þurfum bara að undirbúa okkur. Við erum með gott lið og hugsum ekki um það sem gerist þegar fram í sækir. Við undirbúum okkur vel, reynum að fá alla á sömu blaðsíðu og fylgja okkar áætlun. Ef það verður nóg á morgun verðum við ánægðir. Ef ekki, þá komumst við samt áfram upp úr riðlinum.“

Þegar Dragic var spurður hvernig Slóvenar ætluðu að spila við hið sterka sóknarlið Frakka var svarið einfalt: „Spila góða vörn.“

mbl.is