Spánverjar náðu bronsinu

Paul Gasol skoraði 26 stig í dag.
Paul Gasol skoraði 26 stig í dag. AFP

Spánverjar hrepptu í dag bronsverðlaunin á Evrópumóti karla í körfuknattleik þegar þeir sigruðu Rússa, 93:85, í Istanbúl. Þetta er í sjötta sinn í röð sem Spánn endar í verðlaunasæti á mótinu.

Spænska liðið þótti afar líklegt til að verja Evrópumeistaratitilinn en það tapaði óvænt fyrir Slóveníu í undanúrslitunum. Í dag voru Spánverjar alltaf með undirtökin en Rússar hleyptu spennu í leikinn í fjórða leikhluta þegar þeir minnkuðu muninn í tvö stig.

Gasol-bræðurnir tóku þá leikinn í sínar hendur og gulltryggðu spænskan sigur. Paul Gasol skoraði 26 stig og tók 10 fráköst og Marc Gasol skoraði 25 stig. Alexei Shved skoraði mest fyrir Rússa, 18 stig.

Fyrirliði Spánverja, Juan Carlos Navarro, var kvaddur sérstaklega í leikslok en þetta var síðasti leikur hans með spænska landsliðinu.

mbl.is