Jordan tekur til varna fyrir James

Michael Jordan.
Michael Jordan. AFP

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur lag á því að kalla fram viðbrögð hjá fólki á samfélagsmiðlinum Twitter. Nú hefur honum líklega tekist að fá tvo af farsælustu körfuboltamönnum frá upphafi, LeBron James og Michael Jordan, upp á móti sér. 

Trump gerði lítið úr LeBron James á Twitter og gaf í skyn að körfuboltamaðurinn sem gekk í raðir LA Lakers á dögunum væri illa gefinn. Sagði Trump í lauslegri þýðingu að LeBron James hefði verið í viðtali hjá heimskasta sjónvarpsmanni sem um getur, Don Lemon. Hafi Lemon látið James líta út fyrir að vera greindan og það sé ekki auðvelt. Bætti Trump við: „I like Mike“ sem er eiginlega gamalt slagorð hjá þeim sem hrifust af Michael Jordan á körfuboltavellinum á níunda og tíunda áratugnum. 

LeBron James tekur til máls við stofnun nýrrar menntastofnunar sem …
LeBron James tekur til máls við stofnun nýrrar menntastofnunar sem hann setti á laggirnar í Ohio. AFP

Hér er rétt að geta þess að í viðtalinu sem sjónvarpað var á mánudaginn gagnrýndi James forsetann og sagði málflutning hans um íþróttir vera til þess fallinn að tvístra fólki. Það sagðist James ekki geta stutt en James er tvöfaldur ólympíumeistari í körfuknattleik rétt eins og Michael Jordan. 

NBC hefur birt yfirlýsingu sem talsmaður Michael Jordan sendi frá sér vegna þessa. Hún er reyndar mjög snörp en sýnir alla vega að Jordan sá ástæðu til þess að styðja við bakið á James í þessum aðstæðum: „Ég styð LB. Hann hefur látið geysilega gott af sér leiða fyrir samfélagið.“

Donald Trump.
Donald Trump. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert