„Þeir voru sterkari á svellinu“

Einar Árni leggur línurnar í bikarúrslitunum í gær.
Einar Árni leggur línurnar í bikarúrslitunum í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Njarðvíkur, sagði við mbl.is í Laugardalshöllinni í gær að fleiri af hans lykilmönnum hefðu þurft að sýna sparihliðarnar til að vinna Stjörnuna í úrslitum Geysis-bikarsins í körfuknattleik. 

„Þeir voru klárlega betri en við í sókninni í þessum leik. Við náðum að minnka muninn niður í þrjú stig þrátt fyrir töluverða erfiðleika lengst af í leiknum. Þá settu þeir niður stór skot og forskotið fór þá aftur upp í sex til átta stig. Erfitt reyndist að brúa það og í restina tókum við ákveðna áhættu og jókst þá munurinn. Þeir voru sterkari á svellinu.“

Brandon Rozzell fór hamförum og skoraði 30 stig fyrir Stjörnuna. Setti reyndar stundum niður afar erfið skot. Hefðu Njarðvíkingar getað farið aðrar leiðir til þess að halda aftur af Rozzell? 

„Við þurfum klárlega að skoða það. Hann gerði þetta reyndar virkilega vel og setti niður fullt af erfiðum skotum. Við prófuðum svo sem fleiri en eina aðferð af boltahindrunum á hann en okkur tókst ekki að halda aftur af honum. Við þurfum að gera betur í þeim efnum þegar við mætum þeim í næsta stríði. Hann skaut vel en á sama tíma fengum við ekki mörg stig frá mörgum af okkar skorurum í dag. Það verður að segjast eins og er,“ sagði Einar Árni í samtali við mbl.is. 

mbl.is