Skórnir á hilluna eftir fimmtán ára feril

Gunnhildur Gunnarsdóttir hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna eftir …
Gunnhildur Gunnarsdóttir hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna eftir fimmtán ára farsælan feril. Ljósmynd/FIBA

Gunnhildur Gunnarsdóttir, landsliðskona í körfuknattleik og leikmaður Snæfells í úrvalsdeild kvenna, hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna. Þetta tilkynnti hún á facebooksíðu sinni í dag. Gunnhildur á að baki afar farsælan fimmtán ára feril en hún varð tvívegis Íslandsmeistari með uppeldisfélagi sínu Snæfelli, 2015 og 2016, en hún var fyrirliði liðsins í bæði skiptin.

Þá varð hún bikarmeistari með Snæfelli árið 2016 og var valin körfuknattleikskona ársins á Íslandi það ár. Gunnhildur lék í fjögur ár með Haukum, 2010 til ársins 2014, en annars lék hún allan sinn feril með Snæfelli. Hún varð bikarmeistari með Haukum árið 2014 og þá á hún að baki 36 A-landsleiki fyrir Ísland frá árinu 2012.

„Ég hef tekið ákvörðun um að tileinka tíma minn fjölskyldunni, hvíla mig á boltanum og leggja skóna á hilluna,“ segir á facebooksíðu Gunnhildar. Þetta hafa verið fimmtán ógleymanleg ár, sneisafull af æfingum, vídeófundum, rútuferðum, leikjum, landsliðsferðum, fjáröflunum og öðru tengdu körfunni.

Stundum strembið en alltaf ótrúlega gaman. Eftir standa ótal góðar minningar og vinskapurinn sem toppar þetta allt saman. Takk körfuboltafjölskylda. Sjáumst í stúkunni!“ segir í tilkynningu Gunnhildar á Facebook.

mbl.is