Þjálfaraskiptin komu ekki á óvart

Brynjar Þór Björnsson á fundinum í gær.
Brynjar Þór Björnsson á fundinum í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Brynjar Þór Björnsson, áttfaldur Íslandsmeistari með KR, segist hlakka til að vinna með Darra Frey Atlasyni, nýráðnum þjálfara KR. 

Þeir þekkjast ágætlega þar sem Darri er uppalinn KR-ingur og var um tíma í leikmannahópi KR í meistaraflokki. 

„Já við spiluðum saman í tvö ár, 2012 til 2014. Það var mjög gaman að spila með honum vegna þess að eldmóðurinn í honum var svo mikill. Hann gaf ekkert eftir. Hann leit upp til okkar sem eldri erum en vildi að sama skapi sýna hvað hann gat og reyna að fá að spila. Ég er gríðarlega ánægður með að fá Darra inn í starfið. Ég held að hann sé mjög skipulagður og í honum sé enn þessi mikli eldmóður,“ sagði Brynjar þegar mbl.is ræddi við hann á blaðamannafundi í Frostaskjóli í gær þar sem tilkynnt var um ráðningar í þjálfaramálum. 

Inga Þór Steinþórssyni var sagt upp störfum sem þjálfara karlaliðsins snemma í mánuðinum. Spurður um hvort sú niðurstaða hafi komið Brynjari á óvart sem leikmanni í liðinu segir hann svo ekki vera en ákvörðunina hefði verið hægt að taka fyrr. 

„Nei það er ekki hægt að segja það en það leið kannski full langur tími frá því að tímabilinu var aflýst. Þetta var því frekar skrítið allt saman en miðað við veturinn, og miðað við það sem maður hafði heyrt árið á undan, þá kom mér svo sem ekkert á óvart að hann skyldi stíga til hliðar,“ sagði Brynjar en tímabilið 2018-2019 var Brynjar í herbúðum Tindastóls. 

Ekki liggur fyrir hvort reyndar kempur eins og Jón Arnór Stefánsson, Helgi Már Magnússon og Jakob Örn Sigurðarson verði með KR eða láti gott heita en líklegast þykir á þessum tímapunkti að Jakob verði með. Brynjar segist ekki hafa suðað í þeim að taka slaginn. 

„Nei nei þeir verða bara að finna þetta hjá sjálfum sér. Maður skilur vel að boltinn tekur meiri tíma frá fjölskyldunni þegar menn eru orðnir eldri. Vonandi langar þá til að vera með og ef þeir finna fyrir þeirri löngun þá bjóðum við þá velkomna í hópinn.“

Spennandi að geta haft meiri áhrif

Brynjar mun takast á við nýja áskorun á komandi tímabili en í gær var tilkynnt að hann verði yfirþjálfari yngri flokka. 

„Það er spennandi að takast á við nýtt hlutverk og geta haft meiri áhrif en maður hefur haft áður. Ég held að það verði gaman að geta starfað með meistaraflokksþjálfurunum sem og yngri flokka þjálfurunum og leggja góða línu fyrir starfið,“ sagði Brynjar og segir starfið fara vel saman með spilamennskunni. 

„Ég held að þetta fari mjög vel saman. Ég ræddi til dæmis við Loga Gunnars sem verið hefur yfirþjálfari yngri flokka í Njarðvík í fimm ár. Þetta snýst bara um skipulag. Mikið er um samskipti við KKÍ um leiki og maður situr fundi með þjálfurum og foreldrum. Ég á ekki von á því að þetta trufli neitt leikmannaferilinn því þetta er í rauninni svolítið eins og skrifstofustarf,“ sagði Brynjar Þór Björnsson enn fremur við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert