Þetta er gleðidagur fyrir íþróttirnar

Keflavík vann Þór á Akureyri í fyrstu umferð Dominos-deildar karla …
Keflavík vann Þór á Akureyri í fyrstu umferð Dominos-deildar karla í byrjun október en síðan hefur ekki verið spilað. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Hannes S. Jónsson, formaður Körfuknattleikssambands Íslands, tók tíðindum dagsins um að allt stefndi í að hefja megi keppni á ný frá og með 13. janúar, afar vel.

„Þetta er mikill gleðidagur fyrir íþróttirnar," sagði Hannes við mbl.is nú í hádeginu en KKÍ gaf fyrr í vikunni út nýja niðurröðun fyrir Íslandsmótið í körfuknattleik, sem þar með tekur gildi næsta miðvikudag ef heilbrigðisráðherra staðfestir endanlega eftir helgina að slakað verði á sóttvarnareglum frá og með þeim degi og keppni í íþróttum geti farið af stað á ný.

Ég átti von á þessu miðað við stöðuna á smitum síðustu daga, þá leit og lítur enn út þannig að landsmenn hafi farið varlega í öllu jólahaldi. Við vorum því mjög bjartsýn á að þetta yrðu fréttir dagsins og höfum unnið síðustu vikur þannig að við værum að fara af stað með tvær efstu deildir okkar um miðja næstu viku. Það er einnig mjög gleðilegt að sjá að keppni barna og neðri deilda meistaraflokka verði leyfð og við munum núna fara í að koma keppni þar af stað," sagði Hannes S. Jónsson.

Keppni í Dominos-deild kvenna mun þá halda áfram strax á miðvikudagskvöldinu með heilli umferð en liðin höfðu leikið frá einum og upp í þrjá leiki þegar keppni var hætt í haust. Í Dominos-deild karla var aðeins búið að leika eina umferð í byrjun október en þar er fyrirhuguð umferð á fimmtudag og föstudag í næstu viku, 14. og 15. janúar, og síðan fimm umferðir til viðbótar til mánaðamóta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert