Biðu lægri hlut í Lyon

Martin Hermannsson í leik með Valencia.
Martin Hermannsson í leik með Valencia. Ljósmynd/@YarisahaBasket

Martin Hermannsson og félagar í Valencia máttu sætta sig við tap í Euroleague í kvöld þegar þeir sóttu Lyon-Villeurbanne heim til Frakklands.

Frakkarnir voru með undirtökin allan tímann og voru sextán stigum yfir þegar fjórar mínútur voru eftir. Valencia minnkaði það í átta stig en komst ekki nær og Frakkarnir innsigluðu sigurinn í lokin, 90:77.

Martin spilaði næstmest leikmanna Valencia í kvöld, í rúmar 27 mínútur. Hann skoraði 9 stig, átti sjö stoðsendingar og tók eitt frákast.

Valencia datt með tapinu niður í tíunda sæti af átján liðum í deildinni, liðið hefur unnið ellefu leiki af 21 en Lyon-Villeurbanne er næstneðst.

mbl.is