Rússar of sterkir fyrir Íslendinga

Tryggvi Snær Hlinason í baráttu við Anton Astapkovich í leiknum …
Tryggvi Snær Hlinason í baráttu við Anton Astapkovich í leiknum í Pétursborg í kvöld. Ljósmynd/FIBA

Rússland vann sannfærandi sigur gegn Íslandi 89:65 í H-riðli undankeppni heimsmeistaramóts karla í körfuknattleik í Pétursborg í dag. 

Rússar unnu Ítali í Pétursborg, 92:78, í fyrstu umferð riðilsins á föstudagskvöldið og Ísland vann Holland 79:77 í Almere. Rússar hafa því unnið fyrstu tvo leiki sína og Ísland er með einn sigur og eitt tap eftir tvo útileiki. Næstu leikir í keppninni verða í febrúar. 

Rússarnir sýndu að þeir eru líklegir til að komast í lokakeppni HM. Þeir unnu Ítali með fjórtán stiga mun og voru mjög einbeittir í upphafi leiks í dag. Þeir leyfðu Íslendingum ekki að finna taktinn. Með frábærum leik í vörn og sókn komst Rússland í 16:0 og eftir það var ekki spurning um hvort liðið myndi vinna. 

Rússar voru yfir 17:4 að loknum fyrsta leikhluta og 42:18 að loknum fyrri hálfleik. Fyrstu þrjá leikhlutana léku Rússarnir frábærlega og þá var nánast hvergi veikleika að finna í þeirra leik. Þá voru þeir 77:36 yfir. Styrkleikamunurinn á liðunum var augljós. Íslendingar áttu mjög erfitt með að búa til opin skotfæri í sókninni. Þegar Rússarnir sóttu voru þeir þolinmóðir og biðu eftir opnum skotfærum og þá rötuðu skotin iðulega rétta leið hjá þeim. 

Íslenskt landsliðsfólk er ekki þekkt fyrir að hætta á meðan leikirnir eru enn í gangi. Íslensku landsliðsmennirnir reyndu hvað þeir gátu og unnu síðasta leikhlutann 29:12 þegar Rússana virtist vanta hvatningu til að halda dampi í þeirri firnasterku vörn sem þeim hafði tekist að spila.  Íslendingar löguðu því stöðuna töluvert og lokatölurnar 89:65 eru ekki óeðlilegar þegar Rússar tefla fram leikmönnum sem spila með liðum í Euroleague og Ísland er án Martins Hermannssonar, Hauks Helga Pálssonar og Harðar Axels Vilhjálmssonar. 

Íslenska liðið saknar alltaf Martins þegar hans nýtur ekki við enda besti sóknarmaður liðsins og maður sem getur búið til færi úr litlu. Í hans fjarveru saknaði liðið Harðar Axels meira en það gerði í sigurleiknum gegn Hollandi. Hörður hefur stundum haft lag á því að skipuleggja sóknirnar og róa menn aðeins niður þegar á móti blæs.  

Margir af yngri leikmönnum í hópnum fengu að spreyta sig og þeir fóru að skila stigum í síðari hálfleik. Þórir Guðmundur var áræðinn og Kristinn Pálsson skoraði 8 stig í síðari hálfleik. Þeir eru framtíðarmenn og gott fyrir þá að upplifa að spila mótsleik á móti stórveldi á útivelli. 

Stig ÍslandsElv­ar Már Friðriks­son 13, Kristó­fer Acox 11Jón Axel Guðmunds­son 8Krist­inn Páls­son 8Tryggvi Snær Hlina­son 7, Ólaf­ur Ólafs­son 6Kári Jóns­son 5, Ægir Þór Stein­ars­son 5, Þórir Guðmund­ur Þor­bjarn­ar­son 2Hilm­ar Smári Henn­ings­son og Ragn­ar Ágúst Nathana­els­son komu einnig við sögu þótt þeir hafi ekki skorað. Hilmar gaf tvær stoðsendingar og Ragnar tók 2 fráköst. 

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Rússland 89:65 Ísland opna loka
99. mín. skorar
mbl.is