„Gáfumst upp allt of snemma“

Lovísa Björt Henningsdóttir keyrir upp að körfu Njarðvíkinga í kvöld.
Lovísa Björt Henningsdóttir keyrir upp að körfu Njarðvíkinga í kvöld. mbl.is/Óttar Geirsson

Lovísa Björt Henningsdóttir, fyrirliði Hauka, sagði Hauka geta sjálfum sér um kennt eftir oddaleikinn gegn Njarðvík í Ólafssal á Ásvöllum í kvöld. 

Sagði hún Haukaliðið ekki hafa mætt rétt stillt til leiks í leik þar sem Íslandsmótið var undir og því hafi liðið mjög fljótt þurft að elta Njarðvíkinga. 

„Þetta er svekkelsi. Nú er aðallega pirringur yfir því að hafa ekki komið betur tilbúnar í leikinn en þetta. Allir vissu hvað þetta var stór leikur og það er mjög svekkjandi að hafa ekki komið af meiri krafti en þetta inn í leikinn,“ sagði Lovísa þegar mbl.is ræddi við hana á Ásvöllum. 

Haukar skoruðu aðeins 5 stig í fyrsta leikhlutanum og þá var staðan strax orðin erfið og Njarðvík með ellefu stiga forskot. 

„Já ég gef Njarðvíkingum risa hrós að koma svona ótrúlega flottar inn í leikinn. Þær skutu öllum skotum til að hitta úr þeim og gerðu það. Við lentum strax í mótlæti og mér fannst við gefast upp of snemma. Það má ekki í svona risaleikjum þar sem sveiflur verða hér og þar. Það má ekki gefast upp en við gerðum það allt of snemma í kvöld.“

Úrslitarimman þróaðist með furðulegum hætti því allir fimm leikirnir unnust á útivelli. „Já þetta er eiginlega stórfurðulegt. Ég skil ekkert í þessu en kannski vilja Njarðvíkingar fá Ásvelli sem heimavöll eftir þetta,“ sagði Lovísa ennfremur en hún skoraði 7 stig, tók 4 fráköst og gaf 2 stoðsendingar í oddaleiknum í kvöld. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert