Vilja að Tindastóll áfrýi og KKÍ breyti reglunum

Fjórir erlendir leikmenn Tindastóls eru hér inni á vellinum á …
Fjórir erlendir leikmenn Tindastóls eru hér inni á vellinum á sama tíma. Ljósmynd/Skjáskot/RÚV

Aganefnd KKÍ úrskurðaði í gær Haukum 20:0-sigur gegn Tindastóli í 1. umferð VÍS-bikars karla í körfubolta vegna brots Sauðkrækinga á reglum um erlenda leikmenn. Tindastóll vann leikinn 88:71.

Haukar eru þar með á leiðinni í leik gegn Njarðvík í 16-liða úrslitum en Bragi Hinrik Magnússon, formaður körfuknattleiksdeildar Hauka, hvetur Tindastól til að áfrýja úrskurðinum í viðtali við Vísi í dag.

Segir Bragi að markmið Hauka með því að kæra úrslitin hafi snúist um að laga reglur KKÍ um erlenda leikmenn, fremur en að koma Haukum áfram í keppninni eftir tapleik.

Aðeins þrír erlendir leikmenn mega vera inni á vellinum í einu hjá hvoru liði í keppnum á vegum KKÍ. Tindastóll var með fjóra leikmenn á vellinum í nokkrar sekúndur, á meðan Hilmar Smári Henningsson tók vítaskot fyrir Hauka. Þrátt fyrir að leikklukkan hafi ekki verið í gangi og atvikið ekki haft nein áhrif á gang leiksins, var Haukum úrskurðaður sigurinn.

Refsingin er því hörð, miðað við alvarleika brotsins. Bragi vonast því eftir áfrýjun frá Tindastóli og þá segir hann Hauka reiðubúna að draga kæruna til baka, ef KKÍ samþykkir að breyta reglugerðinni um erlenda leikmenn og leikurinn verði þá spilaður aftur.

„Með þessari leið þá vinna allir í rauninni. Tindastóll dettur ekki úr keppninni, við fáum annað tækifæri í ljósi þess að Tindastóll raunverulega braut gildandi reglugerð, og KKÍ fær tækifæri til að laga reglugerðina og hafa hana eins og menn vilja hafa hana,“ sagði Bragi við Vísi.

mbl.is