Lygileg flautukarfa í Portland

Jamal Murray tryggði Denver sigur í nótt.
Jamal Murray tryggði Denver sigur í nótt. AFP/Justin Tafoya

Jamal Murray reyndist hetja Denver Nuggets þegar liðið heimsótti Portland Trail Blazers í bandarísku NBA-deildinni í körfuknattleik í nótt.

Leiknum lauk með eins stigs sigri Denver, 121:120, en Murray tryggði Denver sigur með ótrúlegri flautukörfu, fyrir utan þriggja stiga línuna, þegar tæp sekúnda var til leiksloka.

Nikola Jokic, stundum þekktur sem Jókerinn, var sem fyrr atkvæðamikill hjá Denver og skoraði 33 stig, tók tíu fráköst og gaf níu stoðsendingar.

Hjá Portland var það Damian Lillard sem dró vagninn þegar kom að stigaskorun en hann skoraði 40 stig, gaf tólf stoðsendingar og tók fjögur fráköst.

Denver er í fjórða sæti vesturdeildarinnar með 15 sigra en Portland er í áttunda sætinu með 13 sigra.

Úrslit næturinnar í NBA:

Miami – LA Clippers 115:110
San Antonio – Houston 118:109
Portland – Denver 120:121

mbl.is