Haukar unnu magnaðan leik í framlengingu

Norbertas Giga skoraði 25 stig og tók 13 fráköst fyrir …
Norbertas Giga skoraði 25 stig og tók 13 fráköst fyrir Hauka í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Haukar reyndust hlutskarpari gegn KR, 103:101, þegar liðin áttust við í framlengdum spennutrylli í úrvalsdeild karla í körfuknattleik, Subway-deildinni, í Ólafssal að Ásvöllum í kvöld.

Það þarf ekki að koma neinum á óvart að mikið jafnræði var með liðunum allan tímann.

KR leiddi með sex stigum, 48:42, í hálfleik og voru Haukar búnir að minnka muninn niður í tvö stig, 71:69, að loknum þriðja leikhluta.

Eftir hreint æsispennandi fjórða leikhluta var staðan hnífjöfn, 94:94, að honum loknum.

Því þurfti að grípa til framlengingar. Í henni breyttist ekkert, áfram var gífurlega mjótt á munum en þegar sex sekúndur voru eftir setti Darwin Davis sniðskot niður fyrir Hauka.

Þorvaldur Orri Árnason reyndi þriggja stiga skot í næstu sókn KR en það geigaði og sigurinn féll því heimamönnum í skaut.

Davis var stigahæstur hjá Haukum ásamt Norbertas Giga, en báðir skoruðu þeir 25 stig. Giga tók auk þess 13 fráköst.

Hilmar Smári Henningsson bætti við 22 stigum og Daniel Mortensen átti sömuleiðis stórleik þar sem hann skoraði 20 stig, tók 13 fráköst og gaf átta stoðsendingar.

Hjá KR var Justas Tamulis stigahæstur með 26 stig. Brian Fitzpatrick skoraði 19 stig og tók 12 fráköst að auki. Þorvaldur Orri bætti þá við 18 stigum.

Haukar eru eftir sigurinn áfram í fjórða sæti deildarinnar en nú með 20 stig, jafnmörg og Njarðvík í þriðja sæti og aðeins tveimur stigum á eftir Keflavík og Val í efstu tveimur sætunum.

KR situr sem fyrr á botni deildarinnar með aðeins 4 stig, tveimur stigum frá öruggu sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert