McLaughlin stórbætti eigið heimsmet

Sydney McLaughlin vann sér inn ólympíugull með stórkostlegu hlaupi í …
Sydney McLaughlin vann sér inn ólympíugull með stórkostlegu hlaupi í nótt. AFP

Bandaríski spretthlauparinn Sydney McLaughlin gerði sér lítið fyrir og sló aðeins rúmlega mánaðar gamalt heimsmet sitt þegar hún keppti í úrslitum 400 metra grindahlaups kvenna á Ólympíuleikunum í Tókýó í nótt og tryggði sér þannig ólympíugull með glæsibrag.

McLaughlin kom í mark á 51,46 sekúndum og bætti þar með eigið heimsmet frá því í lok júní á þessu ári um tæpa hálfa sekúndu, en það fyrra var 51,90 sekúndur.

Hún stórbætti þar með um leið ólympíumetið í greininni, sem var 52,64 sekúndur og í eigu Melanie Walker frá Jamaíku, en hún setti það á leikunum í Peking árið 2008.

Önnur í mark kom landi McLaughlin, Dalilah Muhammad, sem hljóp sömuleiðis á mögnuðum tíma, 51,58 sekúndum. Ef ekki hefði verið fyrir McLaughlin hefði sá tími verið nýtt heimsmet en Muhammad þurfti að láta ólympíusilfur duga.

Hin hollenska Femke Bol kom þriðja í mark á 52,03 sekúndum og tryggði sér þannig bronsverðlaunin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert