Ætlaði ekki að láta hann vinna mig

Róbert Ísak Jónsson er kominn í úrslit í 200 metra …
Róbert Ísak Jónsson er kominn í úrslit í 200 metra fjórsundi. Ljósmynd/ÍF

Róbert Ísak Jónsson kvaðst hafa fylgt þeirri reglu að einbeita sér að sjálfum sér í undanrásum 200 metra fjórsundsins á Ólympíumótinu í Tókýó í dag en þó hafi það gefið sér aukakraft að sjá góðan kunningja sinn frá Bretlandi til hliðar við sig.

Róbert varð sjöundi í undanrásunum og verður því einn af þeim átta sem keppa til úrslita um verðlaunasætin í flokki S14, þroskahamlaðra, klukkan 08.34.

„Ég er virkilega sáttur með þetta sund. Ég vissi að það yrði góð barátta um að komast í úrslitin. Í heildina gekk þetta upp. Flugið og skriðið voru aðeins hægara en ég vildi hafa það en bakið og bringan gengu nákvæmlega upp. Ég vil fara aðeins hraðar og maður lærir af þessum smá mistökum fyrir kvöldið," sagði Róbert við mbl.is eftir sundið.

Íslandsmet hans frá árinu 2018 er 2:14,16 mínútur og Róbert ætlar að gera allt sem hann getur til að slá það í úrslitasundinu.

„Já, ég verð að fara að bæta það aftur, það er orðið dálítið gamalt. Þetta er tækifæri til þess. En ég ætla að komast ofar en í sjöunda sæti í úrslitasundinu. Samt hef ég ekkert fylgst mjög mikið með hinum, ég ætla bara að fara sjálfur hraðar og bæta minn tíma.

Ef ég fer að hugsa of mikið um hina á meðan ég er að synda þá missi ég fókus á sjálfum mér. Ég hef lært að ef maður fylgist of mikið með mótherjunum þá gleymir maður sundtökum, gleymir að hugsa sjálfur. Með því að einbeita sér að sjálfum sér þá nærðu miklu betri úrslitum.

Reyndar hvatti það mig áfram í þessu sundi að sjá til Jordan Catchpole í skriðsundinu, þremur brautum frá mér. Við þekkjumst vel og hann er fínn strákur en ég ætlaði ekki að láta hann vinna mig. Það gerði útslagið um að ég náði sjöunda sætinu. Þetta getur því ýtt manni áfram," sagði Róbert, sem nú ætlar að borða vel, slaka á og hvíla sig fyrir úrslitasundið í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert