Stórbætti eigið Íslandsmet og varð sjötti

Róbert Ísak Jónsson ánægður með Íslandsmetið eftir sundið í Tókýó …
Róbert Ísak Jónsson ánægður með Íslandsmetið eftir sundið í Tókýó í dag. Mbl.is/Víðir Sigurðsson

Róbert Ísak Jónsson hafnaði í sjötta sæti í 200 metra fjórsundi í flokki S14, þroskahamlaðra, á Ólympíumótinu í Tókýó í dag og setti um leið sitt fjórða Íslandsmet á mótinu.

Róbert synti vegalengdina á 2:12,89 mínútum og stórbætti þar með eigið Íslandsmet en hann náði að bæta sig frá því í morgun í öllum fjórum greinunum, flugsundi, baksundi, bringusundi og skriðsundi. Hann var áttundi þegar komið var fram í lokasprettinn en sigldi í skriðsundinu fram úr tveimur keppinautanna og kom að bakkanum á glæsilegu Íslandsmeti.

Íslandsmet hans í greininni var 2:14,16 mínútur en í undanrásunum í morgun varð hann sjöundi af átján keppendum á 2:15,37 mínútum og tryggði sér þar með sæti í átta manna úrslitasundinu. Fyrirfram var hann með níunda besta tímann og þurfti því mjög góða frammistöðu til að komast í átta manna úrslitin.

Róbert Ísak Jónsson kynntur til leiks í úrslitasundinu.
Róbert Ísak Jónsson kynntur til leiks í úrslitasundinu. Ljósmynd/ÍF

Heimsmetið féll

Sundið í heild var gríðarlega hratt og kraftmikið og Reece Dunn frá Bretlandi sigraði á nýju heimsmeti, 2:08,02 mínútur. Hann náði þar með tveggja ára gömlu meti af Japananum Dai Tokairin sem varð fjórði í dag.

Róbert hefur þar með lokið keppni á Ólympíumótinu en þetta var hans þriðja og síðasta grein. Hann varð sjötti í 100 metra flugsundi og setti um leið þrjú Íslandsmet, tíundi í 100 metra bringusundi og nú sjötti í 200 metra fjórsundi á glæsilegu Íslandsmeti. Róbert, sem er aðeins tvítugur, er því á góðum stað meðal tíu bestu sundmanna heims í sínum flokki.

Lokaröðin í 200 m fjórsundinu:

1 Reece Dunn, Bretlandi, 2:08,02, heimsmet
2 Gabriel Bandeira, Brasilíu, 2:09,56
3 Vasyl Krainyk, Úkraínu, 2:09,92
4 Dai Tokairin, Japan, 2:11,29
5 Mikhail Kuliabin, Rússlandi, 2:12,00
6 Róbert Ísak Jónsson, Íslandi, 2:12,89
7 Nicholas Bennett, Kanada, 2:13,21
8 Marc Evers, Hollandi, 2:13,25

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert