Reykjavíkurleikarnir hefjast í 16. sinn um helgina

Spretthlauparinn Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir á Reykjavíkurleikunum árið 2021.
Spretthlauparinn Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir á Reykjavíkurleikunum árið 2021. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Á föstudaginn hefjast Reykjavíkurleikarnir í 16. sinn og fara fram dagana 27. janúar til 5. febrúar.

22 íþróttagreinar eru á dagskrá, en flestir mótshlutarnir fara fram í Laugardalnum og nágrenni hans. Margt af okkar besta íþróttafólki mun keppa á leikunum.

RIG var upphaflega komið á fót til þess að auka samkeppnishæfni íslensks íþróttafólks og draga þannig úr ferðakostnaði þess með því að búa til alþjóðlegan viðburð í Reykjavík sem dregur til sín sterka erlenda keppendur.

Þátttakendur frá um 50 þjóðum

Á fjórða hundrað erlendra gesta taka þátt á leikunum í ár. Í hópi íþróttafólksins má finna heims- og Ólympíumeistara og því má búast við sterkri keppni í mörgum greinum.

Fjölmennustu mótin eru sundkeppnin og badmintonið. Sundkeppnin er sú stærsta og sterkasta sundkeppni sem haldin hefur verið á landinu, þar mætir sterkt lið alls staðar að úr heiminum, en hátt í 400 keppendur eru skráðir á mótið.

Þá er einnig badminton-keppnin sterk þar sem hátt í 300 keppendur keppa um helgina í TBR húsinu, þá eru þátttakendur þar frá 40 þjóðum.

Íþróttaráðstefnan SPORTS 2023

Dagana 1. - 2. febrúar verður ráðstefna þar sem fókusinn er á afreksþjálfun, þjálfun barna og ungmenna og á stjórnun íþróttafélaga. Margir erlendir og íslenskir fyrirlesarar koma til landsins til að fræða og segja frá sinni reynslu.

Þá má helst nefna Véstein Hafsteinsson, nýráðinn afreksstjóra ÍSÍ, sem verður með fyrirlesturinn „How do you become an Olympic champion?“

Þá kemur Elísabet Gunnarsdóttir og verður með tvo fyrirlestra, annan um hvernig þú býrð til lið úr einstaklings íþróttafólki og hinn um mikilvægi að ná þátttöku samfélagsins og styrktaraðila í íþróttum.

Frekari upplýsingar um ráðstefnuna SPORTS 2023 má finna á heimasíðu Reykjavíkurleikanna.

Skoða má dagskrána hér.

mbl.is