Verður stærsta farþegaþota heims

Eftirlitsnefnd Airbus samþykkti formlega í gær að hafin yrði framleiðsla á risaþotu sem hefur fengið nafnið A380 og verður stærsta farþegaþota heims.

Þotan verður tveggja hæða og á að geta tekið 555 farþega. Farþegarýmið verður stærra en í öðrum þotum og hægt verður að innrétta bari, spilavíti og setustofur. Þotan hefur hingað til verið kölluð A3XX.

Með framleiðslu þotunnar vonast Airbus til þess að styrkja stöðu sína verulega í samkeppninni við Boeing.

"Þessi ákvörðun markar þáttaskil í sögu flugsins og þota 21. aldarinnar verður tekin í notkun í byrjun ársins 2006," sagði í yfirlýsingu frá Airbus.

"Við getum ekki verið stoltari af þessari þotu," sagði Manfred Bischoff, formaður eftirlitsnefndarinnar, eftir að hún tilkynnti ákvörðun sína. Hann bætti við að risaþotan yrði í fremstu röð hvað varðar öryggi og orkunýtingu.

Gert er ráð fyrir því að framleiðsla þotnanna kosti 12 milljarða dala, andvirði rúmlega 1.000 milljarða króna.

Hefur fengið 50 pantanir

Airbus ákvað framleiðsluna eftir að nokkur flugfélög höfðu gert samninga um kaup á 50 risaþotum og forkaupsrétt á 42 til viðbótar. Stjórnendur fyrirtækisins höfðu sagt að a.m.k. 50 pantanir þyrftu að liggja fyrir til að hægt yrði að hefja framleiðsluna. Fyrirtækið náði þessu takmarki á föstudag þegar Virgin Atlantic Airways pantaði sex þotur og tryggði sér forkaupsrétt á sex til viðbótar.

Fimm önnur flugfélög hafa þegar undirritað samninga um kaup á A380 þotum. Þýska flugfélagið Lufthansa og British Airways hafa einnig sýnt risaþotunni áhuga og hafið viðræður við Airbus.

Stærsta pöntunin kom frá ástralska flugfélaginu Qantas Airlines, sem hyggst kaupa tólf þotur. Er þetta mikið áfall fyrir Boeing því Qantas hafði notað Boeing-þotur í rúm 40 ár.

Singapore Airlines, Air France, Emirates Airlines og alþjóðlegt kaupleigufyrirtæki hafa einnig pantað A380 þotur, auk Qantas og Virgin.

Airbus segir að spurnin eftir risaþotum eigi eftir að aukast á næstu áratugum og spáir því að 1.235 þotur með meira en 400 sæti verði í notkun eftir 20 ár.

Boeing segir hins vegar að flugfélög hafi meiri hug á að kaupa minni þotur. Stærsta þota Boeing getur tekið 416 farþega.

Boeing hefur þó undirbúið framleiðslu á 520 sæta þotu en ekki fengið neinar pantanir enn sem komið er.

Tolouse. AP.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK