Vala Flosadóttir kjörin íþróttamaður ársins

Vala Flosadóttir með verðlaunagripinn eftir að hún hafði tekið við …

Vala Flosadóttir með verðlaunagripinn eftir að hún hafði tekið við honum úr hendi Adolfs Inga Erlingssonar, formanns Samtaka íþróttafréttamanna. Myndin er tekin af beinni útsendingu RÚV með góðfúslegu leyfi.
mbl.is

Vala Flosadóttir, stangarstökkvari úr ÍR, var í kvöld kjörin íþróttamaður ársins. Hún náði stórkostlegum árangri á Ólympíuleikunum í Sydney í sumar þegar hún vann til bronsverðlauna og varð þannig fyrsta íslenska konan til að vinna til verðlauna á Ólympíuleikum og þriðji Íslendingurinn í sögunni. Vala fékk 440 atkvæði í kjörinu, Örn Arnarson, sundkappi úr SH og íþróttamaður ársins sl. tvö ár, varð annar með 337 atkvæði og Guðrún Arnardóttir, grindahlaupari úr Ármanni, hafnaði í þriðja sæti með 237 stig.

Á Ólympíuleikunum stökk Vala 4,50 metra og setti nýtt Íslands- og Norðurlandamet með því að bæta sig um fjórtán sentimetra, en hún átt fyrir leikana best 4,36 metra. Vala er aðeins þriðja konan sem hlýtur nafnbótina íþróttamaður ársins í þau 45 skipti sem Samtök íþróttafréttamanna, sem standa að kjörinu, veita verðlaunin. Ragnheiður Runólfsdóttir, sundkona, var kjörin árið 1991 og Sigríður Sigurðardóttir, handknattleikskona, árið 1964. Eftirfarandi íþróttamenn fengu stig að þessu sinni: 1. Vala Flosadóttir, frjálsíþróttir - 440 stig
2. Örn Arnarson, sund - 337
3. Guðrún Arnardóttir, frjálsíþróttir - 237
4. Kristín Rós Hákonardóttir, sund - 130
5. Birgir Leifur Hafþórsson, golf - 76
6.-7. Eiður Smári Guðjohnsen, knattspyrna - 71
6.-7. Eyjólfur Sverrisson, knattspyrna - 71
8. Rúnar Alexandersson, fimleikar - 55
9. Hermann Hreiðarsson, knattspyrna - 50
10.-11. Kristján Helgason, snóker - 49
10.-11. Ólafur Stefánsson, handknattleikur - 49
12. Kristinn Björnsson, skíði - 24
13. Björgvin Sigurbergsson, golf - 19
14. Jón Arnar Magnússon, frjálsíþróttir - 17
15. Halldór B. Jóhannsson, fimleikar - 10
16.-17. Árni Gautur Arason, knattspyrna - 7
16.-17. Magnús Aron Hallgrímsson, frjálsíþróttir - 7
18. Jakob Jóhann Sveinsson, sund - 6
19. Guðjón Valur Sigurðsson, handknattleikur - 5
20.-21. Ásthildur Helgadóttir, knattspyrna - 4
20.-21. Rakel Ögmundsdóttir, knattspyrna - 4
22.-24. Elsa Nielsen, badminton - 2
22.-24. Jóhanna Rósa Ágústsdóttir, fimleikar - 2
22.-24. Jón Arnór Stefánsson, körfuknattleikur - 2
25.-27. Guðni Bergsson, knattspyrna - 1
25.-27. Ólafur Jón Ormsson, körfuknattleikur - 1
25.-27. Þormóður Egilsson, knattspyrna - 1
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert