Ísland á athugunarlista S&P

Seðlabankinn við Arnarhól.
Seðlabankinn við Arnarhól.

Alþjóðlega matsfyrirtækið Standard & Poor's segir að lánshæfiseinkunn Íslands hafi verið sett á athugunarlista með neikvæðum horfum. Er þetta gert í kjölfar niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar um Icesave-lögin á laugardag.

Ísland er með einkunnirnar BBB- og A-3 í erlendri mynt og BBB+ og A-2 í íslenskum krónum hjá S&P en með neikvæðum horfum. Í tilkynningu frá fyrirtækinu segir, að einkunnin verði á athugunarlista á meðan efnahagslegar, fjárlagslegar og pólitískar horfur fyrir Ísland séu metnar. Niðurstaða fáist eftir nokkrar vikur. 

„Við sjáum að hugsanlega steðji aukin efnahagsleg hætta að Íslandi vegna þess að við teljum að Icesave-málið muni líklega koma til kasta EFTA dómstólsins. Við reiknum með að málsmeðferðin þar verði í eitt ár eða lengur. Dragist þessi deila á langinn kann það að veikja samband Íslands við önnur Evrópuríki, auka á fjármögnunarvanda landsins og draga úr möguleikum á efnahagsvexti. Einnig minnka líkur á að hægt verði að aflétta gjaldeyrishöftum," segir í tilkynningu fyrirtækisins. 

Þá segir einnig, að einkunn Íslands miklar erlendar og opinberar skuldir landsins, sem kynnu að verða enn meiri ef gjaldeyrishöftin væru ekki til staðar, þrýsti á lánshæfiseinkun Íslands. En á móti komi, að hagkerfi Íslands sé sveigjanlegt og stofnanir landsins séu færar til að styðja varanlegan hagvöxt og stuðla að endurskipulagningu fjármálakerfisins.  

Matsfyrirtækið  Moody’s boðaði í febrúar, að lánshæfiseinkunn Íslands hjá fyrirtækinu kynni að lækka ef Íslendingum tækist ekki að leysa Icesave-deiluna við Breta og Hollendinga. Fram kom hjá Má Guðmundssyni, seðlabankastjóra,  að Moody's muni ekki breyta lánshæfismati sínu á ríkissjóði fyrr en í fyrsta lagi eftir næstu helgi. Sendinefnd frá ríkisstjórninni og Seðlabanka Íslands hittir fulltrúa fyrirtækisins á fundi í Washington næsta sunnudag.

Matsfyrirtækið Fitch senti frá sér tilkynningu á mánudag þar sem sagði, að horfur fyrir lánshæfiseinkunn Íslands væru neikvæðar. Fitch skilgreinir íslensk ríkisskuldabréf í svonefndan ruslflokk en hjá S&P og Moody's eru skuldabréfin í neðsta þrepi svonefnds fjárfestingarflokks. 

Tilkynning S&P

mbl.is
Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir